Um helgina voru Hörmungadagar á Ströndum og leikfélagið tók virkan þátt í þeirri ágætu skemmtun. Lagði félagið til skrímsli til að hræða fólk í svokallaðri Skrímslagöngu sem farinn var í rökkrinu um Orrustutanga við Sauðfjársetrið í Sævangi. Voru þar á ferðinni fjörulalli, kerlingin í dalnum, morðinginn Axlar-Björn og ógnvænlegur dreki sem sótti að göngufólkinu sem var þar á rölti með þjóðfræðingnum og yfirnáttúrubarninu Dagrúnu Ósk Jónsdóttir afturgenginni. Hafði hún umsjón með Skrímslagöngunni og sagði viðstöddum frá mörgum skrímslum, ómennskum og mennskum.
Þetta var ævintýralegt og ógnvænlegt kvöld en þó skemmtilegt og fyndið í bland. Á sama tíma í fyrra sá leikfélagið um að manna draugagöngu með sama sniði. Samstarfsaðilar í þessu skemmtilega verkefni voru Sauðfjársetur á Ströndum, Arnkatla – lista- og menningarfélag og Þjóðfræðistofa á Hólmavík.