January 17, 2025

Þetta reddast alltaf!

(Pistill eftir Guðlaugu G.I. Bergsveinsdóttur, formann)
Það er eiginlega alveg agalegt að vera að skrifa svona ástarjátningu í miðju æfingaferli á næstu uppsetningu leikfélagsins, Bót og betrun. Einmitt þessa stundina er ég nefnilega svo meðvituð um hvað þetta er allt erfitt. Við kunnum ekki línurnar okkar og það á eftir að klára sviðsmyndina. Fáum við allt propsið fyrir frumsýningu, hverju er ég að gleyma? Hvað á eftir að plana, eftir að gera? Hvernig kom ég mér í þær aðstæður að þurfa að hugsa um allt þetta? Við höfum þurft að díla við endalaus veikindi og ófærð. Það er svo margt sem getur ennþá farið úrskeiðis. Hvernig geta svona sýningar yfir höfuð gengið upp?

Stella tekur í lurginn á gærunni 😉

Þær gera það samt alltaf, einhvernveginn. Þetta reddast alltaf. Stundum á algjörlega óskiljanlegan hátt, en oftast af því að við gefum svo fáránlega mikið af okkur í verkið. Svo klárast tímabilið og eftir sitja helst bara góðu minningarnar. Ég lét mig hafa það að vera dregin, næstum því bókstaflega, í Stellu í orlofi vorið 2020, um 10 dögum fyrir frumsýningu. Helstu minningar mínar þaðan eru að vera dregin um allt gólfið á hárinu og vera síðan ein á sviðinu um miðnætti, bjór í annarri hendi og pensill í hinni, tónlist í botni, að klára að mála leikmynd. Það var æðislegt!

Þar á undan var mér boðið að taka þátt í Saumastofunni, haustið 2019. Ég sagði já, án þess að hugsa mig mikið um, enda aldrei verið fær um að ákveða hvort ég vilji vera feimin eða athyglissjúk. Seinna komst ég að því mér til mikils hryllings að ég myndi þurfa að syngja. Fyrir framan fólk. Alein.

En einhvernveginn reddaðist það.

Leikfélagið bjargaði geðheilsu minni það haust. Það voru tvö ár síðan amma og mamma höfðu dáið nokkuð skyndilega, og heimurinn lá þungt og dimmt ofan á mér meðan hausinn minn, óumbeðinn, rifjaði upp hvert einasta smáatriði af þessum ömurlega tíma tveimur árum fyrr. Hvað er þá betra að gera til að dreifa huganum, en að læra línurnar sínar og njóta sín í hópi af úrvalsfólki?

Stúlkurnar á Saumastofunni

Það var löngu fyrr sem ég hafði fyrst spurnir af Leikfélagi Hólmavíkur. Árið 2001 sýndu þau Karlinn í kassanum í Vogalandi, en það var talsvert lengra yfir í sveitina mína þá en er í dag. Ég veit að ég var þar pínulítið kvikindi sem skildi ekki meirihlutann af bröndurunum en skemmti mér samt. Minningin af Frænku Charley’s nokkrum árum síðar er mun skýrari, þar sem ég sat á fremsta bekk, skildi miklu fleiri brandara og hló endalaust!

En þetta litla krakkagerpi með skökku tennurnar sínar og ofvirka ímyndunaraflið sitt sá þó aldrei fyrir sér að koma nálægt þessu fólki eða félagi tveimur áratugum síðar sem leikari. Því síður sem formaður félagsins.

Takk fyrir að hafa ávallt tekið svona vel á móti mér, elsku Strandamenn, það er heiður að fá að umgangast ykkur.