December 28, 2024

Uppruni tegundanna

(Pistill eftir Eirík Valdimarsson)

Eiríkur í hlutverki Dúddadidda í Halta-Billa

Þegar ég flutti norður á Strandir árið 2013 var ég ekki lengi að detta inn í félagsskap Leikfélags Hólmavíkur. Síðan þá hef ég oftar en ekki stigið á stokk, leikið aumingja (það virðist fara mér vel!), Rómeó, morðóða skrattakolla, afdankaða sjóara, misheppnaða poppara, furðulega leikstjóra og já, var ég búinn að segja aumingja? Tíminn er ómældur sem hefur farið í æfingar, leikferðir, undirbúning, samlestur, smíðar og smink, að bíða baksviðs og loks standa á sviðinu. En saga mín og Leikfélags Hólmavíkur hófst þó ekki árið 2013.

Við erum stödd í Skagafirði. Árið er 1992 og dagsetningin 28. maí. Þarna var ég 9 ára gamall og haustið áður höfðu foreldrar mínir tekið sauðfé aftur eftir riðu-niðurskurð nokkrum árum fyrr. Þetta vor heyrðist því aftur lambajarm í túnunum heima í Vallanesi og því miklar annir við þau góðu búverk. Þarna, síðla maímánaðar hafði komið auglýsing í póstkassann: „Glímuskjálfti sýnt í Miðgarði, 28. maí klukkan 20:00.“

Þegar þarna var komið við sögu í minni tilveru hafði ég aldrei farið til útlanda, aldrei séð tölvu, hafði bara einu sinni smakkað pizzu og aldrei farið í leikhús! Og nú langaði mig að prufa leikhúsið, þetta hlaut að vera spennandi sýning. Ég fór að suða í foreldrum mínum um að fara á þessa kvöldsýningu, en þá var enn sauðburður í gangi og svörin á þá leið að „enginn tími væri til að fara þvælast eitthvað burt frá búverkunum, til að horfa á leikrit!“ Við þau gömlu var hvorki tautað né raulað. Ég mátti svo sem alveg fara, en þá þyrfti ég að finna mér far sjálfur. Og það gerði ég!

Ég hringdi á nokkra bæi í kring, uns stórvinur minn hann Gunnar Gunnarsson í Syðra-Vallholti bauðst til að taka mig með þeim hjónum á sýninguna. Og það varð úr, ég fór í jólaskyrtuna mína, tróð mér í spariskóna og snaraði mér upp í Varmahlíð, í Miðgarð til að horfa á leikritið Glímuskjálfti. Í fyrsta skipti á ævinni var ég kominn í leikhús! Ég skemmti mér konunglega, keypti mér Pepsí flösku í hléinu og eitthvað súkkulaðistykki. Eftir sýninguna fór ég heim ansi rogginn með mig og lengi vel stóð þessi upplifun með mér. Ég man að vísu ekki mikið eftir verkinu sjálfu, man eftir fólki á brókinni, einhverjum með glímubelti um sig miðja, en þó fyrst og fremst fannst mér gaman og góður andi í minningunni. Þetta var góð tilbreyting frá Tomma og Jenna og Klaufabárðunum!

Eiríkur Skagfirðingur um það leyti sem hann fór fyrst í leikhús í Skagafirðinum!

Mörg ár liðu þar til ég fór aftur í leikhús, enda tíðkaðist slíkt ekki í minni bernsku. Þegar ég var kominn í menntaskóla fór ég reglulega á leiksýningar og alveg óvart lék ég í leikritinu Hárinu sem leikfélag skólans setti upp en um leið heillaðist ég af sviðinu. Síðan lék ég ekki meir … ekki fyrr en ég var fluttur á Strandir og orðinn heimagangur í Leikfélagi Hólmavíkur.

Undir merkjum Leikfélags Hólmavíkur var ég svo búinn að vera í nokkur ár, orðinn öllum hnútum kunnugur og „grár fyrir hærum“, þegar við Jón Jónsson fórum að ræða um gömul leikverk leikfélagsins. Þá kemur upp úr krafsinu að leikritið Glímuskjálfti hafði verið leikið af Leikfélagi Hólmavíkur á sínum tíma. Ekki nóg með það, heldur var það einmitt árið 1992. Og þau fóru í leikferð, meðal annars í Skagafjörðinn! Þar með var það ljóst að mín fyrsta leikhúsupplifun var á vegum Leikfélags Hólmavíkur þetta fallega vorkvöld! Þvílíkt sem það var skemmtileg uppgötun og án þess að vita það hafði ég sjálfur leikið með nokkrum af þeim sem léku í Glímuskjálfta.

Með þá vitneskju í farteskinu var það einkar falleg stund þegar ég fór í leikferð árið 2019 ásamt Leikfélagi Hólmavíkur meðal annars í Skagafjörðinn og lék þar í Nönnu systur frammi fyrir fullum sal! Hringnum var lokað: Ég var kominn heim!