December 28, 2024

Maður í mislitum sokkum á fjalirnar í vor

Leikritið sem Leikfélag Hólmavíkur setur upp þetta vorið heitir Maður í mislitum sokkum og er eftir Arnmund Backman. Í verkinu segir frá ekkjunni Steindóru og vinum hennar sem lifa frekar tilbreytingalausu lífi, þangað til tilveran tekur allt í einu óvænt heljarstökk.

Æfingar hófust um miðjan febrúar og stefnt er að frumsýningu föstudaginn 24. mars næstkomandi. Sýningar verða einnig um páskana og stefnt er að leikferðum að hætti leikfélagsins í framhaldinu. Sýnt er og æft í Sævangi. Átta leikarar taka þátt í uppsetningunni að þessu sinni og margir fleiri koma að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti. Skúli Gautason leikstýrir.