(pistill eftir Jón Jónsson)
Í dag var gömlum Strandamanni fylgt síðasta spölinn, Ása á Hnitbjörgum. Hann var glaðvær og skemmtilegur náungi, hafði unun af tónlist og harmonikkuleik. Líka var hann glúrinn að spila, bæði félagsvist og bridge. Hann stóð oft uppi sem sigurvegari á spilakvöldum og var alltaf glaður, hvort sem vel gekk eða illa.
Við Ási kynntumst vel þegar hann gekk til liðs við Leikfélag Hólmavíkur fyrir 20 árum, við uppsetningu á Karlinum í kassanum, þá rétt að verða sjötugur. Þetta þótti dálítið uppátæki hjá honum, svona á gamals aldri, en var happafengur fyrir okkur í leikfélaginu. Ási lék prófastinn í leikritinu og hafði óskaplega gaman af, rétt eins og við öll sem vorum með honum í leikhópnum og áhorfendur líka. Hann stóð sig alveg ljómandi vel, var býsna góður leikari og gat líka vel hermt eftir fólki.
Það kom fram í minningarorðunum hjá prestinum í dag að synir hans hefðu átt nokkuð annríkt við að hjálpa honum að læra textann sinn, en það tókst allt að lokum. Til öryggis bjó hann samt til kerfi til að kalla eftir aðstoð frá hvíslaranum, með því að banka tvisvar í gólfið með stafnum sínum. Það reyndi ekkert að ráði á þetta kerfi, fyrr en á lokasýningunni í Árneshreppi. Þá var Ási búinn að ákveða að bæta brandara um prestinn í hreppnum inn í leikritið og gerði það svikalaust. Það vakti verulegan hlátur í salnum, en rétt á eftir átti prófasturinn að flytja mikinn reiðilestur og skammir yfir Einari Indriðasyni sem lék Pétur P.P. Mörland og mér sem lék skrítna vininn Friðmund Friðar. Þegar hláturinn dróst á langinn gleymdi Ási öllum þeim reiðilestri og bankaði í gólfið með stafnum. Hvíslarinn reyndi að hvísla en Ási heyrði ekkert fyrir hlátrinum í salnum og hélt þess vegna áfram að banka af auknu kappi, svo hvíslarinn kom varla að orði, en var þó næstum kominn inn um eldhúsgluggann á sviðsmyndinni. Við Einar sáum að lokum að við svo búið mátti ekki standa, ef takast ætti að klára leikritið, svo við skömmuðum okkur bara sjálfir og skömmuðumst okkar til skiptist. Prófasturinn hafði gaman af og skellihló með áhorfendum að öllu saman.
Ási var svo áfram viðloðandi leikfélagið, tók seinna þátt í þjóðsagnadagskrá og mætti á allar uppsetningar.Auk þess sem leiðir okkar Ása lágu saman við spilaborðin og hjá leikfélaginu, þá hittumst við oft á Sauðfjársetrinu í Sævangi. Honum þótti vænt um safnið og kom stundum með ljósmyndir og hafði gaman af að spjalla yfir kaffisopa. Mér þótti vænt um Ása á Hnitbjörgum og votta fjölskyldu hans, tengdafólki, ættingum og vinum samúð mína.
Ég er ekki viss um að ég hafi sjálfur tekið þessar myndir sem fylgja, þótt ég hafi fundið þær í minni tölvu. Hef grun um að Ingibjörg Valgeirsdóttir hafi tekið myndina þar sem Ási er að lesa fyrir eldri borgara á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík fyrir áratug og þar sem hann er að spjalla við Indriða Sigmundsson frænda minn (og ágætan leikara) í sama skipti.