(Pistill frá Sauðfjársetri á Ströndum)
Síðustu vikurnar og næstu tvær er félagsheimilið Sævangur leikhús frekar en Sauðfjársetur! Leikfélag Hólmavíkur frumsýndi á páskadag, dásamlega skemmtilegan og fyndinn farsa, Bót og betrun, í Sævangi. Önnur sýning var á mánudaginn og framundan eru þrjár sýningar í viðbót, sunnudaginn 24. apríl, föstudaginn 29. apríl og laugardaginn 30. apríl. Byrja allar kl. 20:00. Ólíklegt er að farið verði í leikferð með stykkið að þessu sinni.
Súpa verður á boðstólum í Sævangi fyrir sýningar fyrir þau sem vilja, og opnar húsið fyrir það 18:30 sýningardagana. Tekið er á móti pöntunum fyrir leikhúsmiða og súpu fyrir þau sem vilja í síma 693-3474 (Ester).
Samvinna Sauðfjársetursins og Leikfélags Hólmavíkur hefur löngum verið dásamleg. Leikfélagið hefur tekið þátt í ótal uppátækjum Sauðfjársetursins á 20 ára sögu þess, til dæmis mætt í búningum á Furðuleika, tekið þátt í Drauga- og Skrímslagöngu og útvegaði leikarana í leikna flakkaramynd sem er hluti af sýningu um Förufólk sem opnuð var í fyrra. Myndin er þar sýnd á skjá.
Leikfélagið hefur líka áður sett upp stór leikrit í Sævangi. Það er afbragðs gott hljóð í húsinu og heimilisleg og góð stemming. Salurinn tekur yfir 100 manns í sæti og heldur samt vel utan um gestina, hvort sem þeir eru margir eða fáir. Karlinn í kassanum var æfður og sýndur í Sævangi árið 2001 og sama gildir um Nönnu systir sem sýnd var 2019. Á síðustu öld var líka farið í leikferðir í Sævang, þótt ekki væri langt að fara á sýningar á Hólmavík. Þá var líka farið í leikferðir á Drangsnes og í Broddanesskóla. Fleira fólk sem bjó á Ströndum þá.
Einnig hefur leikfélagið sýnt einþáttunginn sMaL í Sævangi 2014 og einleikinn Draugasögu 2015 og 2016. Bæði þessi verkefni voru beinlínis samvinnuverkefni safnsins og Leikfélagsins og samin af heimamönnum.
Sauðfjársetrið óskar Leikfélagi Hólmavíkur hjartanlega til hamingju með nýju sýninguna og hlakkar til frekari samvinnu í framtíðinni. Hvetjum fólk eindregið til að mæta og láta það eftir sér að hlægja dátt eina kvöldstund! Hláturinn lengir lífið!
#TeamLeikfélag #Leikhólm40ára #Sauðfjársetur20ára #Þaðersvogamanaðleika