Eins og fram hefur komið hefur Leikfélag Hólmavíkur í huga að setja upp leikrit í mars og apríl næstkomandi. Óskað hefur verið eftir því að áhugasamir um þátttöku gefi sig fram við stjórnina, Gullu, Úlfar og Jón. Rétt er að ítreka að það á ekki bara við um þá sem geta hugsað sér að leika í leikriti, heldur vantar líka allskonar hjálparhendur sem halda sig á bak við leikhústjöldin. Þar má nefna ljósamenn og tæknifólk, sviðsmenn og smiði, svo þarf að gera leikskrá, sjá um búninga og farða liðið og ég veit ekki hvað. Það eru nokkur ár síðan Leikfélagið hætti að vera með hvíslara á leikritum sínum, en alls konar aðstoð á æfingum og sýningum kæmi sér líka vel. Hér á meðfylgjandi myndum eru tveir víðfrægustu förðunarmeistarar Leikfélags Hólmavíkur að leika módel á förðunarnámskeiði hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga, sem við erum stoltir þátttakendur í.