February 5, 2025

Styrktaraðilum og stuðningsfólki þakkað ;)

Það er nú aldeilis ekki rakið gróðafyrirtæki að setja upp leikrit á stöðum eins og Ströndum þar sem markhópurinn er frekar fáskipaður. Það væri satt best að segja alls engin leikstarfsemi á litlum stöðum eins og hér á Hólmavík, ef ekki fengist stuðningur við verkefnin frá sveitarfélagi, ríki og okkar ástkæru styrktaraðilum. Og raunar hefur starfsemi áhugaleikfélaga víða lagst af síðustu áratugina, sem er mikill skaði fyrir stemmningu, félagslíf og samfélag. Á Vestfjörðum hafa síðustu árin eingöngu verið virk áhugaleikfélög á Hólmavík og Þingeyri og af og til á Ísafirði.

Sveitarfélagið Strandabyggð styður fjárhagslega við starfsemi Leikfélags Hólmavíkur með árlegu framlagi. Ríkisvaldið styður líka við leiksýningar sem settar eru upp af aðildarfélögum BÍL (Bandalags íslenskra leikfélaga) sem Leikfélag Hólmavíkur er aðili að. Utan þessara aðila hefur Uppbyggingarsjóður Vestfjarða lengi stutt við áhugaleikfélög og uppsetningar þeirra og Leikfélag Hólmavíkur notið góðs af stuðningi þeirra. Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hefur einnig veitt Leikfélagi Hólmavíkur tvo mikilvæga styrki síðustu ár.

Einnig njótum við vinsemdar fjölmargra fyrirtækja á svæðinu sem styðja við starfsemina með margvíslegum hætti, stundum með því að rukka lítið eða ekkert fyrir vinnu, aðstöðu eða þjónustu og stundum með því að kaupa auglýsingar í leikskránni. Loks er það svo öll sjálfboðavinnan sem leikfélagar sjálfir inna af hendi, það munar svo sannarlega um allt það vinnuframlag. Ekki má svo gleyma blessuðum áhorfendunum sem koma að horfa og borga sig inn á sýningarnar okkar!

Takk kærlega fyrir ykkar framlag, öll sem eitt! Án ykkar væri ekkert leikhús á Ströndum.