Forleikurinn mikli
Að kvöldi miðvikudagsins 1. júní var mikið fjör í félagsheimilinu á Hólmavík. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur söfnuðust þar að, einn af öðrum. Voru menn misjafnlega úttroðnir eftir gríðarlegt kökuát fyrr um daginn í veislu sem Strandabyggð hélt í tilefni af skólahaldi á Hólmavík í 100 ár.
Nú var komið að því að troða sviðsmynd og húsgögnum og ljósum og tæknibúnaði og farða og búningum og mörgu fleiru í eina gríðarstóra kerru sem slökkvitækjaþjónustan Aðgát á Hólmavík á. Þóttu mikil undur og stórmerki hvað mikið komst í kerruna af spýtum og flekum sem voru töluvert lengri en kerran sjálf. Eftir töluvert mas og bras og troðning og fjas var kerran full af búnaði og viktaði 1,5 tonn þegar hún var viktuð á hafnarvoginni síðar um kvöldið.
Skólabíll Strandabyggðar var sömuleiðis undirbúinn fyrir leikferðina miklu um Vestfirði og spáð og spekúlerað í hverjir færu með og lagt á ráðin um hver færi í hvaða bíl. Gleði og gaman sveif yfir vötnum. Svo fóru allir heim að sofa.
Dagur 1: Sýning á Patreksfirði 🙂
Allir voru mættir eldsnemma og klárir í slaginn fyrir ferðalagið. Nítján manns (með börnum), ein skólarúta og tveir bílar. Eftir að eldsneyti hafði verið dælt á alla þessa eðalvagna var brunað af stað. En fljótlega fór að kárna gamanið, einn bílinn og sá sem rak lestina strandaði strax á Þröskuldunum og neitaði að fara lengra. Bensín er ekki sérlega hentugt eldsneyti fyrir díselbíla. Á meðan skólarútan og hinn bíllinn brunuðu áfram með viðkomu í öllum hugsanlegum sjoppum á leiðinni, gerðu heimamenn út björgunarleiðangur, brugðust skjótt við og þeyttust upp á Þröskulda og síðan var sóttur í snarhasti annar bíll í staðinn fyrir þann sem svelgdist á bensíndropanum dýra. Sameinaðist allur hópurinn síðan við hamborgara-, pizzu og þorskát á Hótel Flókalundi og urðu fagnaðarfundir þegar síðasti bíllinn renndi þar í hlað.
Til Patreksfjarðar var komið í kringum tvö og tveimur tímum seinna var búið að bera inn gromsið og stilla upp sviðsmyndinni að mestu leyti. Ljósamenn og búningastjórar eru í þessum skrifuðu orðum enn að brasa eitthvað baksviðs, og ilmur er úr eldhúsinu. Þar er einhver sem kann til verka, eitthvað að fást við mat.
Leikhópurinn tekur hlutverk sín alvarlega og ákveðið var að hafa textaæfingu. Menn eru eitthvað smeykir vegna þess hve langt hefur liðið frá síðustu sýningu 🙂 hehe. Sá sem þetta ritar situr hins vegar við tölvuna og þarf ekkert að kunna textann sinn. Þeir sem leika gamla ruglaða karla geta sagt hvað sem þeim sýnist 🙂 Panik greip um sig á miðri textaæfingu. Það vantar sundhettu, sú gamla rifnaði á síðustu sýningu og gleymst hafði að útvega nýja. Íþróttamiðstöðin á Patreksfirði á hrós skilið fyrir að redda þessu fyrir okkur. Textaæfingin gat haldið áfram.
Klukkan er orðin sex og allir saddir og sælir. Í matinn var dýrindis kjúklingasúpa með miklum lauk sem soðin var í risapotti í gríðarstóru eldhúsi Patreksfirðinga. Félagsheimilið er reyndar líka risastórt og mjög skemmtilegt menningarhús. Smink- og hárgreiðsludömurnar eru byrjaðar að undirbúa sig og menn eru farnir að spekúlera í búningunum sínum og mætingunni í kvöld, hvort íbúar Patreksfjarðar og nágrennis láti sjá sig á sýningunni. Það er alltaf dálítið spennandi og ófyrirsjáanlegt hvað gerist í þeim efnum. Við vitum þó að þeir sem koma missa ekki af góðri skemmtun, hláturinn lengir lífið. Hópurinn er að taka til í salnum og gera klárt.
Sýningin hófst kl. 20:00 eins og að var stefnt. Einar Indriðason hefur greinilega mikla reynslu af leikferðalögum, því hann var næst því að giska rétt á áhorfendafjöldann í hefðbundinni samkeppni leikhópsins og fylgifiska um þetta efni. Alls mættu 27 á leikritið, en ágiskanir gerðu ráð fyrir áhorfendafjölda á bilinu 10 til 101. Áhorfendahópurinn var hins vegar hreint afbragð, hló mikið og skemmti sér hið besta, enda var sýningin kraftmikil og góð. Raunar afbragðs vel heppnuð.
Sviðsmyndinni var sópað niður á mettíma eftir að sýningu lauk og hlaðið í rútuna og kerruna góðu. Salbjörg hlóð þó barnaskara í bílinn sinn og brunaði strax af stað, enda löng leið framundan. Kuldalegt var um að litast á Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði, snjóél og skafrenningur. Gist var á Flateyri í þremur húsum og komu menn í náttstað á bilinu frá því um eitt um nóttina og síðust renndi rútan í hlað klukkan þrjú. Tókust menn í nokkra stund á um dýnur og rúmstæði, en allir fundu þó stað til að sofa á að lokum.
Dagur 2: Sýning í Bolungarvík
Þeir árrisulu í hópnum, Jón Vilhjálmsson og Jón Jónsson, tóku daginn snemma eftir góðan nætursvefn. Fyrst fóru þeir í gönguferð um þorpið og síðan í bíltúr. Hittu þeir ýmsa Flateyringa á ferðum sínum og tóku þá alla tali, enda þekktu þeir þá frá fornu fari af góðu einu. Nokkrir þýskir túristar voru að gera sig klára í sjóstangveiðibátana. Höfðu þeir fjárfest í birgðum miklum af pilsner í versluninni á staðnum og þóttust hafa gert kjarakaup að fá bjór á svona góðu verði. Tóku Strandamenn undir það og glöddust með Þjóðverjunum.
Þegar aðrir ferðafélagar voru vaknaðir til lífsins og morgunkaffið hafið upphófst mikil umræða um svefnvenjur og aðbúnað einstakra meðlima hópsins. Töldu sumir guðsþakkarvert að hafa húsaskjól á þessum síðustu og verstu tímum og voru hinir kátustu. Aðrir báru sig aumlega, þóttust ekkert hafa sofið fyrir hrotum og gnístran tanna. Enn aðrir töldu að dýnur væru ýmist of harðar eða of mjúkar, jafnvel væri of heitt eða of kalt í sumum vistarverum. Höfðu þeir sem höfðu góðan aðbúnað gaman af.
Laust fyrir hádegi hrúgaðist liðið í rútubílinn og brunaði af stað í Bolungarvík. Einn varð eftir á Ísafirði við fundahöld og fjör, en hinir hófust þegar handa við að bera sviðsmyndina inn í glæsilegt og nýuppgert Félagsheimilið í Bolungarvík. Þar er allt til fyrirmyndar og ekki spillti fyrir að húsvörðurinn er ættaður úr Kollafirði á Ströndum. Fögnuðu ættingjar hans í leikhópnum honum ákaflega eftir ættrakninguna, rétt eins og týndi sonurinn væri fundinn að nýju.
Uppsetning sviðsmyndar tókst vel. Sviðsopið var þó öllu minna en á Patreksfirði og fækkaði uppsettum flekum enn frá sviðinu á Patreksfirði, en þar höfðu 3 flekar orðið útundan. Nú þurfti líka að grípa til örþrifaráða og annar stóllinn sem vera átti við hliðina á sófanum varð útundan. Símaborð verður líka á nýjum stað. Eftir er að sjá hvaða áhrif það hefur á leikinn, sem færist augljóslega nokkuð til á sviðinu. Ljóst er að stundum þurfa menn að sitja og standa annars staðar en þeir eru vanir.
Sund- og búðarferðir settu svip á daginn, glens og grín, hopp og hí og trallalí. Í hópinn bættust Ingibjörg Valgeirs og Kría sem komu brunandi til Bolungarvíkur í tilefni dagsins. Nú kl. 16:30 eru margir lagstir til hvílu víðs vegar í félagsheimilinu, sviðið komið upp, búið að græja ljós og hljóð. Framundan er súpa hjá Birnu Pálsdóttur sem hún bauð öllum hópnum í af alþekktum rausnar- og myndarskap. Birna er frábær og vinur allra Strandamanna.
Fiskisúpan mikla hjá Birnu Hjaltalín smakkaðist frábærlega og gaman var að hitta hana og afkomendur hennar sem þar voru. Það er auðugt samfélag sem á svona gott og skemmtilegt fólk. Síðan var það sminkið.
Sýningin tókst afbragðsvel og um 70 manns mættu. Virtust menn skemmta sér hið besta og var mikið hlegið. Eftir að búið var að moka öllu gromsinu út í bíl var brunað aftur á Flateyri, með viðkomu í Hamraborg. Sátu menn nú nokkuð fram eftir nóttu við spjall og spilamennsku. Sögur um mistök í sýningum, erfiðum aðstæðum við uppsetninguna, fjöri í leikferðum, vísnagerð og fleira sprell sem Leikfélagið hefur staðið fyrir. Þegar langt var liðið á nóttu skröngluðust menn til hvílu. Enginn varð alvarlega vitlaus, en höfðu þó sumir kynnst fangaklefa Flateyrar áður en dagur rann. Segir ekki meira af því ævintýri.
Dagur 3: Sýning í Súðavík
Upp risu leikfélagar á laugardegi, misjafnlega sprækir. Sumir fóru í ljósmyndaleiðangur um Flateyri áður en aðrir risu úr rekkju, enda viðraði ágætlega til myndatöku. Aðrir nýttu tímann til að heimsækja háaldraðar föðursystur. Á hádegi voru allir vaknaðir og leiðin lá til Súðavíkur, sýning framundan í samkomuhúsinu.
Það var ekki laust við að sumum brygði aðeins í brún þegar þeir ráku nefið inn í samkomuhúsið. Þar var nefnilega ekkert raunverulegt svið eins og menn eiga að venjast í félagsheimilum, bara sviðsop og nokkrir pallar sem greinilega voru notaðir til að leika á. Sem betur fer voru í hópnum margir sem höfðu glímt við uppsetningar fyrir leiksýningar í Reykjanesi og Broddanesskóla á síðustu öld og voru því öllu vanir. Tóku menn nú til óspilltra málanna.
Unnið, bugun, pizzur, bugun, sýning, þrengsli, góð mæting, karlarnir og bakföllin, mútta mætt á sýningu, hnífabardaginn í lokin, breyting, þögnin langa.
Haldið heim, ein sýning eftir – í Trékyllisvíkinni 😉
LJósmyndasafn úr ferðinni er á Fésbókarsíðu Jóns Jónssonar og heitir Leikferð um Vestfirði. Þar erum argar góðar myndir
Hér er meira efni:
„Blaðsíða 11 er aldrei eins“
Viðtal: Sara Jóhannsdóttir og Arnór Jónsson
Í vetur setti Leikfélag Hólmavíkur upp leikritið Með táning í tölvunni og nú er nýlokið leikferð með farsann hringinn í kringum Vestfirði. Fréttamaður strandir.is yfirheyrði tvo yngstu meðlimi sýningarinnar um hvernig það væri að vera að taka þátt í uppsetningu á leikriti með Leikfélagi Hólmavíkur og hvað stæði helst upp úr. Sara Jóhannsdóttir og Arnór Jónsson eru fjallkát með ævintýrin sem þau hafa lent í með leikfélaginu í vetur. Ein sýning af leikritinu er enn eftir og verður hún í Árnesi í Trékyllisvík þann 16. júní næstkomandi.
Hvernig var að leika með Leikfélagi Hólmavíkur?
Arnór: Það var mjög gaman, frábært fólk.
Sara: Já, það var gaman að vinna með fólkinu, frábært!
Hvað kom ykkur mest á óvart?
Arnór: Hvað það var auðvelt að læra textann sinn.
Sara: Já, ég er sammála og líka það að ég varð aldrei leið á að mæta á æfingar þó þær væru margar og langar.
Arnór: Já, það var alltaf gaman á æfingum.
Finnst ykkur þið vera lík karakterunum sem þið leikið?
Arnór: Nei, alls ekki. Gulli er geðveikt pirrandi karakter.
Sara: Nei.
Arnór: Jú víst, þið Vala eruð lúmskt líkar. Þið gerið aldrei neitt af ykkur, eruð alltaf í góðu skapi og mjög kurteisar.
Sara: Ókei, pínulítið þá.
Hvað fannst ykkur skemmtilegasta atriðið í leikritinu?
Sara: Bíddu aðeins, ég þarf að fara í gegnum leikritið.
Arnór: Þegar að ég hitti Mæju í fyrsta skiptið. Ég kem niður þegar að Mæja er nýbúin að tala um kynlífsvanda Steina og hún heldur að við séum að sofa saman.
Sara: Æææi, hjálpaðu mér.
Arnór: Ég veit ekkert hvað er uppáhalds atriðið þitt. Við erum aldrei inni á sviðinu á sama tíma.
Sara: Jú, í byrjuninni. Það er örugglega atriðið á blaðsíðu 11 í handritinu, því að hún er ALDREI eins á neinni sýningu! Það er atriði þegar að ég, Mæja og Jón Gunnar erum að rífast um hvort að Gulli megi koma í heimsókn eða ekki.
Hvernig var stemmingin í leikferðinni?
Sara: Geðveik, það var frúkuð stemming.
Arnór: Það var æðislega gaman, allir í góðu skapi allan tímann
Væruð þið til í að leika með leikfélaginu á Hólmavík í framtíðinni?
Sara: Auðvitað, mig langar það mikið.
Arnór: Mig langar það, en ég er að fara annað í skóla svo að það verður ekki strax. Ef ég bý hér í framtíðinni þá mun ég pottþétt gera það.
Hver er klikkaðastur í leikfélaginu?
Sara: Hugsum nú vel!
Arnór: Pabbi og Einar Indriða.
Sara: Árný Huld og Jón Jónsson.
Hafið þið öðlast aukna frægð á Hólmavík eftir leikritið?
Sara: Aðallega hjá yngri börnunum, ég hef einu sinni gefið eiginhandaráritun, það var fjör.
Arnór: Já, yngri krakkarnir kalla mig stundum Gulla. Ég hef líka gefið eina eiginhandaráritun.
Hvað var skemmtilegast svona í heildina?
Arnór og Sara: Frumsýningin!
Sara: Leikferðin stóð líka uppúr.
Voruð þið stressuð fyrir frumsýninguna?
Arnór: Nei
Sara: Já, en líka spennt.
Arnór: Ég ældi fyrir eina sýninguna, en það var af því að Sara gaf mér hnetu.
Sara: Við dönsuðum alltaf á litla sviðinu fyrir sýningar á Hólmavík því að þá varð ég minna stressuð.
Værirðu til í að verða leikari?
Arnór: Já, en bara áhugaleikari.
Sara: Ég mun alveg örugglega leika með leikfélagi í framtíðinni því þetta er rosa gaman.
Hvernig gekk samstarfið?
Sara: Það er alltaf gaman að vinna með svona æðislegu fólki sem að kom að sýningunni.
Arnór: Þetta var allt frábært fólk og Arnar, sem að er ekki búinn að fá neitt hrós í þessu viðtali, er frábær leikstjóri.
Hvar var skemmtilegast að sýna?
Arnór: Í Súðavík
Sara: Já, á Súðavík, það var ævintýri, við þurftum að smíða sviðið sjálf.
Arnór: Já það var fjör, eða ég smíðaði samt ekkert, ég fór bara út í bæ að hitta krakka. Svo gleymdi Inga textanum sínum á sýningunni þegar hún og Steinar hlupu hring í salnum og allir áhorfendurnir hlógu geðveikislega mikið.
Sara: Já og við fengum fullt af pizzum. Það var snilld.
Vefurinn strandir.is þakkar Arnóri og Söru kærlega fyrir spjallið og óskar þeim og Leikfélagi Hólmavíkur alls hins besta í framtíðinni.
Það er svo gaman að leika í Trékyllisvík
Viðtal: Leikarar í Leikfélagi Hólmavíkur
Leikfélag Hólmavíkur er á leiðinni norður í Árneshrepp til að sýna gamanleikinn góða Með táning í tölvunni. Um lokasýningu á stykkinu er að ræða og hefst hún kl. 20:00 í Árnesi í Trékyllisvík, fimmtudagskvöldið 16. júní. Leikritið hefur fram að þessu verið sýnt átta sinnum á fjórum stöðum á Vestfjörðum. Af þessu tilefni tók fréttamaður strandir.is tók alla sjö leikarana í smá yfirheyrslu. Allir fengu sömu spurningarnar, en svörin sem má finna hér að neðan eru skemmtilega ólík. Vefurinn strandir.is hvetur svo alla til að skella sér í leikhús í Trékyllisvík.
Var erfitt að leika karakterinn þinn?
Steinar: Nei, það var erfitt að æfa hann Steingrím Garðarson, en þegar hann var kominn var hann léttur.
Jónas: Nei, það er mjög auðvelt, hann Jón Gunnar Scheving er mjög einfaldur karakter, þó hann eigi tvær konur.
Árný: Uuuu, já stundum er erfitt að leika Barböru Scheving. Jájá, það getur verið erfitt að halda svona rosa hressri týpu heilt leikrit og svo fær maður stundum harðsperrur í kinnarnar af því að brosa svona mikið.
Inga: Nei, ég myndi nú ekki segja það, en það var svoldið erfitt að ná Maríu Scheving fyrst þegar að við vorum að æfa.
Sara: Nei ég myndi ekki segja það. Því að við Vala Scheving erum svo lúmskt líkar.
Arnór: Það var frekar flókið af því að hann Gulli Scheving er svo ólíkur mér.
Jón: Neinei, ég leik Garðar, gamlan og ruglaðan skapvondan karl sem heyrir bara það sem hann vill heyra. Ef ég man ekki hvað ég á að segja lem ég bara einhvern með stafnum mínum. Yfirskeggið sem ég þurfti að safna fyrir hlutverkið er samt búið að pirra mig í þrjá mánuði. Svo vildi leikstjórinn að ég þyngdi mig um 10 kíló til að ég passaði í hlutverkið, það verður gott að losna við þau aftur.
Hvernig leggst síðasta sýningin í Árneshreppi í þig?
Steinar: Bara mjög vel, ég er spenntur og hlakka til að fara í þetta.
Jónas: Mjög vel.
Árný: Bara frábærlega, ég er geðveikt spennt, gaman að klára þetta og hafa lokasýningu.
Inga: Bara alveg svakalega vel.
Sara: Ég er ógeðslega spennt, en finnst samt leiðinlegt að þetta skuli vera búið.
Arnór: Mér líst vel á sýninguna, en mér finnst líka leiðinlegt að það séu ekki fleiri sýningar og þetta skuli svo vera búið.
Jón: Mér finnst alltaf rosalega gaman að fara í leikferðir, það er svo mikið og skemmtilegt bras og vesen. Síðasta sýningin er alltaf skemmtileg. Ég er líka búinn að undirbúa dálítinn hrekk sem ég ætla að koma hinum leikurunum á óvart með, en það er leyndarmál. Það er líka svo gaman að leika í Trékyllisvík.
Hvað er það síðasta sem þú gerir fyrir sýningu?
Steinar: Ehee, labba um, bara eitthvað, svo sem engin ákveðin rútína á bak við það.
Jónas: Ehemm, labba um.
Árný: Ég stend við hurðina og læt eins og fáviti og labba svo inn á sviðið rosalega fersk.
Inga: Það er að fara að pissa og svo klessi ég hann alltaf með Söru.
Sara: Það síðasta sem ég geri er að klessa hann með Ingu.
Arnór: Ég dansa alltaf við Árnýju áður en ég fer fyrst inn á sviðið.
Jón: Mér finnst nauðsynlegt að vera dálítið stressaður þegar ég kem fyrst inn, þá leik ég betur. Ef ég er alveg slakur, þá stressa ég mig upp, einbeiti mér að því. Bít í stafinn, ímynda mér að ég kunni ekki rulluna mína, loka augunum og held niðri í mér andanum í nokkrar mínútur. Svo næ ég takti við karakterinn með því að lemja þá sem eru baksviðs með stafnum mínum.
Vefurinn strandir.is þakkar Steinari Inga Gunnarssyni, Jónasi Gylfasyni, Árnýju Huld Haraldsdóttur, Ingu Emilsdóttur, Söru Jóhannsdóttur, Arnóri Jónssyni og Jóni Jónssyni fyrir spjallið.