Tobacco Road var æft í nýju félagsheimili Hólmvíkinga sem var þó ekki fulllokið á þeim tíma. Framkvæmdirnar sem voru í gangi urðu til þess að sviðsopinu þurfti að loka með byggingaplasti. Leikstjórinn þurfti því að rýna í gegnum þykkt plastið til að sjá hvað gekk á. M.a. þess vegna var gripið til þess ráðs á æfingartímanum að skreppa í vinnubúðir að Laugarhóli og þar var æft sleitulaust eina helgi. Þessi æfingaferð var afar vel heppnuð.
Leiksýningin fékk sérlega góða dóma og þótti afbragðs vel leikin. Í heildina tekið er Tobacco Road sjálfsagt eitt af þeim allra best heppnuðu sem Leikfélag Hólmavíkur hefur sett upp. Í leikdómi í Alþýðublaðinu 14. maí 1993 sagði meðal annars:
„Ég minnist þess að hafa séð þessa sýningu á árum áður í Iðnó. Það var afbragðs sýning, en þessi sýning Hólmvíkinga stóð henni síst að baki. Það sem kom mér mest á óvart var náttúruþrunginn kraftur leikendanna flestra hverra, skýr framsögn og góðar hreyfingar.“
Í dagblaðinu Degi sagði: „Það er ljóst að Leikfélag Hólmavíkur hefur á að skipa hæfu fólki, sem hefur bæði getu og metnað til þess að gera vel. Um það ber heildarbragur uppsetningarinnar á Tobacco Road glöggt vitni.”
Farið var með leikritið í gríðarmikla leikferð um Norðurland. Í þeirri ferð urðu menn margs vísir um marga hluti, t.d. hvernig á að setja upp leikmynd á nýlögðu parket, maka á sig 1/2 lítra af sósulit einu sinni á dag og láta hálfhrunda leikmynd lafa uppi fram að hléi. Einnig tók leikhópurinn virkan þátt í 17. júní hátíð Hríseyinga með miklum glæsibrag. Þar létu hólmvískir Karíusar, Baktusar og fleiri óféti öllum illum látum. Síðan var farið á 15 manna ball um kvöldið. Gaman gaman.
Þrátt fyrir mikla gleði í leikferðinni, varð leikurum og öðrum það ljóst að jafn þungt verk og Tobacco Road hentar ekki sérstaklega vel til langra leikferða. Andrúmsloftið sem ríkir í svona leikritum getur smitað út frá sér og það er ekki mjög upplífgandi. Þar að auki var aðsóknin sums staðar ekki upp á sérlega marga fiska.
– Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfu –
Höfundur:
Erskine Caldwell.
Leikstjóri:
Skúli Gautason.
Persónur og leikarar:
Jeeter Lester: | Sigurður Atlason |
Ada Lester: | María Guðbrandsdóttir |
Dude Lester: | Arnar Jónsson |
Ellie May Lester: | Herdís Rós Kjartansdóttir |
Amma Lester: | Steinunn B. Halldórsdóttir |
Systir Bessie Rice: | Salbjörg Engilbertsdóttir |
Lov Bensey: | Einar Indriðason |
Pearl Lester: | Jóhanna K. Svavarsdóttir |
Henry Peabody: | Sigurður Sveinsson Vignir Pálsson |
Captain Tim: | Matthías Lýðsson |
George Payne: | Vignir Pálsson |
Hvíslari:
Ingibjörg Númadóttir
Ljósamenn:
Bjarki Guðlaugsson og Eysteinn Gunnarsson.
Hljóð:
Arnar S. Jónsson
Sviðsmynd:
Sigurður Atlason, Einar Indriðason, Ásmundur Vermundsson og Jóhann Magnússon.
Förðun og búningar:
María Guðbrandsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Ragnheiður Ingimundardóttir.
Leikskrá:
Sigurður Atlason, Salbjörg Engilbertsdóttir og Skúli Gautason.
Sýningar (16):
Hólmavík – 10. apríl
Hólmavík – 12. apríl
Drangsnes – 17. apríl
Sævangur – 27. apríl
Króksfjarðarnes – 30. apríl
Lýsuhóll, Snæfellsnesi – 1. maí
Kópavogur – 8. maí
Hnífsdalur – 5. júní
Skagaströnd – 11. júní
Siglufjörður – 12. júní
Ólafsfjörður – 13. júní
Freyvangur, Eyjafirði – 14. júní
Raufarhöfn – 15. júní
Hrísey – 17. júní
Laugarbakki – 18. júní
Árnes – 26. júní