December 27, 2024

Pýramus og Þispa  ¤ 1991-2000

Hin einkar hörmulega kómidía um grimman dauða Pýramusar og Þispu, sem er atriði úr Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare er sennilega ódauðlegt stykki, því Leikfélagið virðist aldrei ætla að hætta að setja það upp.

Þátturinn var fyrst sýndur á 10 ára afmæli leikfélagsins árið 1991 og þá tóku átta manns þátt í uppsetningunni.

Vorið 1993 var ný leikgerð með aðeins þrem leikurum sýnd á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga í Vestmannaeyjum og stuttu síðar í Trékyllisvík. Í Vestmannaeyjum voru viðtökur fádæma góðar, fólk réði ekkert við sig og öskraði af hlátri (og leikarar líka). Á báðum stöðum voru gestaleikarar í hlutverki ljónsins, annar þeirra var Snorri nokkur frá Leikfélagi Patreksfjarðar. Ljónið í túlkun hans var óhugnanlega líkt jólasveini.

Haust 1993 var þátturinn sýndur á Kjördæmisráðstefnu Sjálfstæðisflokksins sem var haldinn á Hólmavík og 1994 var það sýnt þar á baráttudegi verkalýðsins. Um mitt sumar 1995 var það síðan sýnt á Raufarhafnarhátíð fyrir framan Vigdísi forseta og fjölda Raufarhafnarbúa sem skildu hvorki upp né niður í þessu rugli, enda var þá Mikki refur kominn í stað ljónsins. Sumarið 2000 var leikþátturinn síðan sýndur á Kaffileikhúsi í Café Riis á Hólmavík fyrir þá 30 Strandamenn sem enn áttu eftir að sjá hann.

Fjölmargir hafa spreytt sig á að leika í Pýramus og Þispu, en þeir sem oftast hafa leikið eru Salbjörg Engilbertsdóttir, Einar Indriðason og Sigurður Atlason. Það er nokkuð ljóst að þetta leikrit verður leikið til eilífðarnóns.

– Okkur vantar myndir !!! –

Höfundur: 

William Shakespeare

Leikarar og persónur í gegnum árin:

Jón JónssonPýramus
Sigurður AtlasonPýramus, Mikki refur
Jón Gísli JónssonÞispa
Salbjörg EngilbertsdóttirÞispa
Sigríður JónsdóttirÞispa
Magnús RafnssonÞulurinn
Ómar PálssonTunglið
Sverrir GuðbrandssonLjónið
Hrefna Guðmundsdóttir
Guðmundína Haraldsdóttir
Sigurrós Þórðardóttir
Arnar JónssonÞulur, múrinn, tunglið og ljónið
Einar IndriðasonÞulur, múrinn, tunglið og ljónið

Sýningar (7):

Hólmavík – 17. maí 1991
Vestmannaeyjar – 27. maí 1993
Árnes – 26. júní 1993
Hólmavík – 11. september 1993
Hólmavík – 1. maí 1994
Raufarhöfn – 22. júlí 1995
Hólmavík – sumarið 2000