Hin einkar hörmulega kómidía um grimman dauða Pýramusar og Þispu, sem er atriði úr Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare er sennilega ódauðlegt stykki, því Leikfélagið virðist aldrei ætla að hætta að setja það upp.
Þátturinn var fyrst sýndur á 10 ára afmæli leikfélagsins árið 1991 og þá tóku átta manns þátt í uppsetningunni.
Vorið 1993 var ný leikgerð með aðeins þrem leikurum sýnd á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga í Vestmannaeyjum og stuttu síðar í Trékyllisvík. Í Vestmannaeyjum voru viðtökur fádæma góðar, fólk réði ekkert við sig og öskraði af hlátri (og leikarar líka). Á báðum stöðum voru gestaleikarar í hlutverki ljónsins, annar þeirra var Snorri nokkur frá Leikfélagi Patreksfjarðar. Ljónið í túlkun hans var óhugnanlega líkt jólasveini.
Haust 1993 var þátturinn sýndur á Kjördæmisráðstefnu Sjálfstæðisflokksins sem var haldinn á Hólmavík og 1994 var það sýnt þar á baráttudegi verkalýðsins. Um mitt sumar 1995 var það síðan sýnt á Raufarhafnarhátíð fyrir framan Vigdísi forseta og fjölda Raufarhafnarbúa sem skildu hvorki upp né niður í þessu rugli, enda var þá Mikki refur kominn í stað ljónsins. Sumarið 2000 var leikþátturinn síðan sýndur á Kaffileikhúsi í Café Riis á Hólmavík fyrir þá 30 Strandamenn sem enn áttu eftir að sjá hann.
Fjölmargir hafa spreytt sig á að leika í Pýramus og Þispu, en þeir sem oftast hafa leikið eru Salbjörg Engilbertsdóttir, Einar Indriðason og Sigurður Atlason. Það er nokkuð ljóst að þetta leikrit verður leikið til eilífðarnóns.
– Okkur vantar myndir !!! –
Höfundur:
William Shakespeare
Leikarar og persónur í gegnum árin:
Jón Jónsson | Pýramus |
Sigurður Atlason | Pýramus, Mikki refur |
Jón Gísli Jónsson | Þispa |
Salbjörg Engilbertsdóttir | Þispa |
Sigríður Jónsdóttir | Þispa |
Magnús Rafnsson | Þulurinn |
Ómar Pálsson | Tunglið |
Sverrir Guðbrandsson | Ljónið |
Hrefna Guðmundsdóttir | |
Guðmundína Haraldsdóttir | |
Sigurrós Þórðardóttir | |
Arnar Jónsson | Þulur, múrinn, tunglið og ljónið |
Einar Indriðason | Þulur, múrinn, tunglið og ljónið |
Sýningar (7):
Hólmavík – 17. maí 1991
Vestmannaeyjar – 27. maí 1993
Árnes – 26. júní 1993
Hólmavík – 11. september 1993
Hólmavík – 1. maí 1994
Raufarhöfn – 22. júlí 1995
Hólmavík – sumarið 2000