December 27, 2024

Með Tobacco Road í Kópavog

(Pistill af vefsíðu Sigurðar Atlasonar)

Með Tobacco Road í Ásbyrgi á allt annarri rútu

Í allar leikferðirnar með Tobacco Road var farið með rútum. Sérstaklega er minnisstæð rúta sem var leigð hjá Allrahanda þegar farið var með sýninguna í Kópavog. Árgerð hennar var öllum ókunn, en gömul var hún, annar eins forngripur hafði ekki sést lengi á Ströndum. 

Það var lagt af stað frá Hólmavík um hádegisbil og loks komið í Borgarnes þegar verulega var farið að halla degi. Þá dó rútan sínum fyrirséða ellidauða og neitaði að fara lengra, sama hvað reynt var að ýta með öllum tiltækum höndum. Í gang fór hún ekki. Nafnið Allrahanda á fyrirtækinu dugði ekki til.

Á ferð um Norðurland

Þá var tekið á það ráð að fá sent annað farartæki í svokölluðum hvelli frá Allrahanda og seint um nóttina kom strætisvagn sem flutti leikhópinn í brjáluðu roki suður. Til Reykjavíkur var komið klukkan sjö um morguninn, svo það var lítill svefn fyrir sýninguna kvöldið eftir.