December 27, 2024

Með Sex í sveit í Árneshrepp

Á föstudegi rifu vaskir menn og villtar meyjar niður sviðið og ljósin í Bragganum á Hólmavík, pökkuðu niður búningum, leikmunum og öðru glingri, settu allt út í rútu og biðu síðan sallarólegir fram á laugardagsmorguninn 27. apríl (laust eftir sumardaginn fyrsta). Þá var lagt af stað. 

Langoftast tekur leikhópurinn hringinn, áður en sýning hefst.
Það er mjög mikilvægt.

Leikhópnum sóttist ferðin vel þrátt fyrir slabb á Veiðileysuhálsi og í Reykjarfirði. Góður liðsstyrkur var með í för að þessu sinni, hin ofurröska Svanhildur Jónsdóttir og börnin hennar og ennfremur fyrrverandi prófastur og stórleikari Áskell Bendiktsson.

Menn voru komnir í Trékyllisvík laust eftir hádegi og enginn dró af sér við að setja upp sviðið og koma öllu á sinn stað. Hefðbundinni sund- og kaupfélagsferðinni var meira að segja sleppt að þessu sinni. Um miðjan dag eldaði Sabba pottrétt og Sverrir rauðmaga sem allir átu með bestu lyst (alla vega pottréttinn). Einar sýndi mikla dirfsku með því að tengja ljósaborðið beint inn í rafmagnstöflu hússins. Addi lék lasinn í fyrsta skipti á ævinni.

Sýningin tókst ágætlega, en 37 manns mættu á svæðið og hlógu sig máttlausa. Það er gaman að sýna í Árneshreppi því þar eru þakklátustu áhorfendur í heimi. T.d. stóð enginn upp og fór beint heim þegar sýningin var búin, heldur dvaldi fólk í nokkurn tíma og spjallaði við okkur og hvort annað og þakkaði fyrir sig. Gaman að því.

Síðan var öllu draslinu pakkað inn í bíl aftur og lagt af stað heim á miðnætti. Skafrenningur og snjókoma á heimleiðinni varð til þess að við vorum ekki komin á Hólmavík fyrr en tæplega hálf þrjú um nóttina.  

Hér eru myndir úr ferðinni í Árneshrepp gerðar opinberar á vefnum, flestar  teknar af Kristínu Einarsdóttur (nema þær sem eru af henni, þær tók einhver annar).