December 27, 2024

Með Glímuskjálfta til Raufarhafnar

Leikhópurinn nálgast Raufarhöfn - Hermann Hermanns í stuði

(Ferðasaga eftir Jón Jónsson)

Farið var í 2 leikferðir með Glímuskjálfta, eina helgarferð í Króksfjarðarnes og Lýsuhól og svo vikulanga leikferð um Norðurland. Í þeirri ferð var ferðast með rútu og bílstjóra frá Allrahanda. Leikferðin var öll tekin upp á myndband og er hún í dag góð heimild um leikferðir þessa tíma. Aðsókn í ferðalaginu var upp og ofan, en langmest var hún í vinabæ Hólmavíkur á Raufarhöfn þar sem tekið var á móti hópnum sem kóngafólki. Honum voru haldnar matarveislur og ræður og færðar ýmsar gjafir.

Á Kópaskeri var leikið í grunnskóla staðarins, en það var einstök reynsla, því í ljós kom að sviðið er niðurgrafið eins og rómverskt hringleikahús þannig að áhorfendur horfðu niður á leikarana. Áhorfendurnir hefðu að vísu mátt vera fleiri á Kópaskeri, en það var þó ekki slæmt miðað við aðsóknina í Húsavík, en þar var slegið met því að þar mættu einungis níu manns.  

Svanhildur og Jensína baða sig í Ásbyrgi

Einstök sumarblíða var alla ferðina og ýmislegt gert, annað en að leika. Hópurinn var t.d. sérlega iðinn við að skoða fallega staði. Í Ásbyrgi stóðust tveir leikarar, Jón Gísli Jónsson og Sigurður Atlason ekki mátið og spunnu upp leikþáttinn Úhúmaðurinn. Hann er ekki talinn vera við hæfi ungra barna.  

Í Kjarnaskógi á Akureyri var síðan haldin geysimikil grillveisla í tilefni þess að leikferð um Norðurland væri lokið. Þar var meðal annars tekinn upp einþáttungurinn Hver er að ganga á brúnni minni sem er lögfræðidrama sem fjallar um tröllkarl og geitafjölskyldu sem greinir á um eignarrétt brúar nokkurrar.

Úhúmenn á ferðinni

Allir komust heilir heim að lokum. 

Köttur út í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.