December 27, 2024

Í leikferð með Nönnu systur

(Ferðasaga eftir Agnesi Jónsdóttur)

Ég veit ég er ferlega frábær, og fallegri miklu en þú.
Og líka svo gróflega góður, það gerast ei dæmi slíks nú.
Svo lipur og klár og laginn, það líkist mér ekki neinn.
Menn troða mér ekkert um tærnar, því á toppnum stend ég bara einn!

Ef að leikhópurinn í Nönnu systur væri manneskja, þá ætti þetta lag fullkomlega við hana. Þetta lag var raunar orðið lagið okkar í lok leikferðarinnar sem ég ætla að skrifa um hér. Gamanleikritið Nanna systir, sem í raun hefur mjög harmrænan undirtón, var skrifað árið 1996 af Einari Kárasyni og Kjartani Ragnarssyni. Til þess að koma áhorfendum í gírinn fyrir sýningar var búinn til örlítill lagalisti til að spila í salnum á meðan þeir biðu eftir að sýningin byrjaði, þar á meðal var þetta líka frábæra lag með Ríó Tríó, Ég veit ég er ferlega frábær. Ég leyfi mér að segja að það hafi trúlega haft meiri áhrif á leikhópinn en áhorfendurna flest kvöldin.

Brottför

Við hittumst í Sævangi á þriðjudagskvöldi fyrir brottför til að pakka öllu niður sem átti að fara með í leikferðina. Nanna systir gerist mjög heppilega í samkomuhúsi úti á landi þannig við vorum alveg laus við að flytja með okkur mikla leikmynd, og í rauninni samanstóð hún af einum litlum sófagarmi, stól og því sem til var á hverjum stað fyrir sig. Farangurinn samanstóð að mestu leyti af búningum, litlum leikmunum, drapperingum, ljósabúnaði og öðru slíku. Þegar við mættum í Sævang kl. 13 daginn eftir náðu Tetris-meistararnir Nonni Villa og hjálparkokkar hans að troða öllu sem þurfti að koma með í skottið og undir sæti í níu manna skólabílnum og skottið á fólksbílnum hans Úlfars. Skúli Gautason leikstjóri fylgdi hópnum í leikferð sem eðal ljósa- og tæknimaður, og hann pabbi gamli, Nonni Villa, sem allsherjarreddari og miðasölumaður.

Það er kannski frekar óvenjulegt, en leikhópurinn sá um nærri því allt sjálfur, já utan tæknimála og miðasölu sem þeir Skúli og Nonni tækluðu af sæmd. Smink og hár var samvinnuverkefni innan leikhópsins en Ásdís Jónsdóttir fær samt titilinn aðal-sminka, hlutverk sem hún brilleraði í. Ég var aðstoðar-sminka og Íris Jóhannsdóttir hjálpaði okkur líka þegar við vorum í tímaþröng. Leikararnir urðu að gjöra svo vel að læra að gera grunninn sjálfir og við hjálpuðumst svo að við að klára það sem þeir ekki gátu. Leikhópurinn taldi tíu manns, við vorum sem sagt bara tólf að leggja af stað í þessa för svo þessir fararskjótar dugðu okkur … rétt svo.

Dalabúð – í Búðardal

Rútan lagði af stað um tvöleytið á fyrsta áfangastað, Búðardal. Við vorum að fara að sýna í Dalabúð sem fyrsti viðburður á bæjarhátíðinni Jörvagleði. Við mættum á svæðið klukkan þrjú, yfirspennt og til í allt, en þó bara rúmlega hálfur hópurinn. Rest mætti á milli fimm og sex og allir lögðu hönd á plóg við að gera tilbúið fyrir sýningu kvöldsins.

Við vorum mjög upptekin við að skoða nýju uppstillinguna og hugsa hvernig væri best að gera þetta (í raun að læra á dagsferli þessarar leikferðar – hvað þarf að hugsa um? hverju þarf að muna eftir? hvenær þarf að byrja á hinu og þessu?) að sminkið fór fullt seint af stað þennan dag, og sminkurnar hafa sjaldan verið jafn stressaðar rétt fyrir sýningu. Það blessaðist þó allt saman og á sýninguna í Búðardal komu hátt í 80 manns á sýningu og skemmtu sér konunglega af hlátrinum og brosunum að dæma. Þetta var byrjað. Þetta var raunverulegt. Fyrsta sýningin í leikferðinni var búin og hún gekk eins og í sögu.

 Við gengum hratt og vel frá í Dalabúð og brunuðum þaðan yfir í Borgarfjörð þar sem við vorum með tvo bústaði til að gista í hluta af ferðinni. Í bústaðnum gerðum við það fólk gerir í bústað – borðuðum snakk, spjölluðum, hlustuðum á tónlist, fórum í pottinn í einni klessu og horfðum á stjörnurnar og tókum svo smá vikivaka á pallinum. Eins og maður gerir. Þegar allir voru búnir að tjúna sig niður eftir kvöldið skiptum við okkur upp í bústaðina og skriðum í bælin.

Samkomuhús Grundarfjarðar

Morguninn eftir var morgunmatur og pottaferðir í öðrum bústaðnum þar sem við hittumst öll og höfðum það kósí í geggjuðu veðri áður en við legðum af stað aftur. Næsti áfangastaður var Grundarfjörður! Á þessum stað hefur Leikfélag Hólmavíkur ekki sýnt áður og því höfðum við enga hugmynd um við hverju var að búast. Þegar við mættum var vöfflusala og handverkssýning í gangi í félagsheimilinu og við fengum mjög notalegar viðtökur. Þetta félagsheimili var snilldarlega uppsett og sviðið fallegt, en inngönguleiðir á sviðið voru öðruvísi en við vorum vön þannig í fyrsta skipti í ferðinni þurftum við að breyta til að aðlaga okkur að aðstæðum. Við urðum að spegla leiksviðið!

Við höfðum byrjað að sminka mun fyrr þennan dag til að lenda ekki í sömu tímaþröng og í Búðardal, en tókum pásu á því til þess að taka smá inn- og útgöngurennsli á leikritinu. Það var gert til að við myndum ekki ruglast í ríminu í miðri sýningu vegna speglunarinnar. Þessi rennsli verða alltaf pínulítið eins og grískur harmleikur. Mjög fyndin og smá erfið á stundum en í þessum geggjaða hóp var þetta allt æðislegt. Við lékum svo fyrir tæplega 40 skemmtilega áhorfendur um kvöldið og nýttum þetta frábæra félagsheimili til fulls í öllum okkar inn- og útgöngum í leikritinu. Nonni Villa var í miðasölunni í geggjað flottu miðasölubúri við innganginn, og Skúli var ljósa og hljóðmaður uppi á lofti gegnt sviðinu, en sjoppan í hléinu var svo á palli við hliðina á salnum þannig þetta var bara mjög töff hús með öllu til alls!

Eftir sýningu var okkur boðið í kaffi hjá Sigurborgu og Inga í fallega húsið þeirra, Læk, á Grundarfirði. Við sátum þar að snæðingi og spjalli og fengum að skoða króka og kima hússins með tilheyrandi sögum sem var mjög gaman. Eftir að við kvöddum þau og þökkuðum kærlega fyrir okkur lá leiðin aftur í Borgarfjörðinn í bústaðina. Þegar við komum á leiðarenda voru allir mjög þreyttir og roguðust í rúmin til að ná sér í bráðnauðsynlegan svefn.

Lyngbrekka í Borgarfirði

Þennan morguninn höfðu karlmenn í hópnum sagt að þeir myndu elda fyrir okkur alvöru enskan morgunmat. Jón Jónsson var stóryrtastur í þessum loforðum og þegar við mættum um morguninn á slaginu 11 í dögurðinn, var Jón rétt að skríða upp úr pottinum og enginn dögurður í sjónmáli! Við skelltum okkur þá nokkur í pottinn á meðan við biðum eftir því að mennirnir færu að elda. Tvær dömur úr hópnum stóðust ekki mátið og hjálpuðu strákunum við þetta og Gústi grillaði. Jón gerði eitthvað en þóttist hafa gert allt og fannst það mjög fyndið. Jæja, allavega þá fengum við Íris að borða dögurð í pottinum, sem var mjög indælt þrátt fyrir að ein lítil pulsa hafi dottið ofan í. Við fórum út í þennan fallega dag í Borgarfirði södd, sæl og sólböðuð.

Leiðin lá í Lyngbrekku í Borgarfirði, en við byrjuðum á stoppi í Borgarnesi til að versla hinar ýmsu nauðsynjar. Mest var verslað í apótekinu enda hálfur leikhópurinn að kafna úr kvefi eða að glíma við gömul íþróttameiðsl. Í Nettó tók leikstjórinn tvo af leikurunum á eintal við nærbuxnahilluna sem hafði afleiðingar til hins betra fyrir leiksýninguna. Það var svo stutt fyrir okkur að fara í Lyngbrekku og þegar við komum á staðinn komum við inn í þetta líka fína hús sem var með leikmynd frá því að Leikdeild Umf. Skallagríms setti upp Fullkomið Brúðkaup fyrr í vor. Þar sem okkar leikrit krafðist ekki neinnar sérstakrar leikmyndar þá notuðum við bara þeirra leikmynd og aðlöguðum inn og útkomur þar sem við átti, og þetta virkaði afar skemmtilega.

Þetta kvöld í Borgarfirðinum var breyting á leikritinu, sú sem varð til við nærbuxnahilluna í Nettó, hún sló í gegn og eiga Ágúst Þormar Jónsson og Eiríkur Valdimarsson hrós skilið fyrir djörfung og dug þetta kvöld og sýningarnar eftir það. Auk breytingarinnar var fyrir þessa sýningu önnur, óvenjuleg pressa á leikhópnum þar sem í salnum var leikhópur sem settu Nönnu systur líka upp í vor, Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja. Eftir sýninguna buðum við þeim kaffi og gátum þá borið saman bækur okkar um uppsetningarnar tvær, en það kom skemmtilega á óvart að við vorum ekki með nákvæmlega sama handrit heldur gerðist þeirra í skemmu en ekki samkomuhúsi og það voru ýmis atriði allt allt öðruvísi en í okkar handriti. Mjög skemmtilegt. Eftir þessa sýningu var ekið norður í Skagafjörð þar sem okkar biðu aftur tveir bústaðir, og þegar við komum á leiðarenda var okkur enn og aftur skipt upp í bústaðina og við fórum að undirbúa okkur fyrir svefinn. Í öðrum bústaðnum var allur maturinn, og hópurinn sem þar var át sig fullsaddan af alls kyns kræsingum á meðan svangir í hinum bústaðnum fengu sér þurrt brauð með kexköku á milli.

Árgarður í Skagafirði

Þennan dag sváfum við út. Næstum því. Til kl. 11:00. Við Ásdís sem sváfum í herberginu við útidyrnar vöknuðum við það að Eiríkur og Jón, þeir sem mest montuðu sig við okkur yfir kræsingum kvöldsins áður, höfðu læðst yfir í okkar bústað til að ræna þeim litlu matarögnum sem höfðu orðið eftir okkar megin. Þá var mér nú nóg boðið og ég pakkaði ofan í tösku og færði mig yfir í hinn bústaðinn til að eiga ekki á hættu að svelta aftur. (*Raunverulega ástæðan var sú að í herbergið hennar Ásdísar voru sonur hennar, móðir og systir að koma og gista með henni yfir helgina, en það er bara ekki eins fyndið). Þessi dagur var eins og allir hinir, morgunmatur, pottur, sól og blíða.

Við fórum svo yfir í Árgarð. Ég fílaði húsið um leið og ég labbaði inn í það, það var mjög góður andi þarna inni. Þó var það vanbúið að því leyti að þar var engin sviðslýsing til staðar, og enginn stigi til sem náði upp í loft. Þá deyja leikfélagsmenn ekki ráðalausir heldur raða þeir bara upp borðum undir stigann sem til var til að hann myndi ná alla leið upp! Skúli Gauta prílaði upp stigann á meðan fjórir aðrir stóðu uppi á neðstu borðunum og héldu við stigann. Þetta áhættuatriði skilaði okkur tveimur kösturum upp í loft sem var sem betur fer nóg. Í Árgarði voru heldur ekki til myrkvandi gardínur, enda sagði húsvörðurinn okkur að þau hefðu aldrei lent í því að leikið hefði verið í húsinu þegar væri sól úti sem var mjög fyndið. Sem betur fer er alltaf hægt að finna leiðir og lausnir, og farið var í að líma saman svarta ruslapoka til þess að líma fyrir gluggana. Í þessu húsi voru líka drapperingar á stöngum í loftinu á sviðinu þannig að uppsetning dagsins var harla óvenjuleg. Þá var nú gott að eiga hauka í horni sem hjálpa manni með ýmislegt, en þarna í nágrenninu eigum við fyrrum leikfélaga og vinkonu sem kíkti á okkur. Kristín Sigurrós Einarsdóttir kom um miðjan dag í Árgarð og færði okkur kraftmikla súpu, brauð og tertu og veitti okkur svo félagsskap fram að sýningu. Við vorum henni ótrúlega þakklát og það var virkilega gaman að sjá hana og hafa hana með í stússinu.

Um kvöldið vorum við með við búningsklefa á staðnum fyrir baksviðsrými og sminkherbergi. Krafturinn sem skapaðist í leikhópnum við undirbúningin þarna var ótrúlegur. Síðasta lagið áður en sýningin byrjaði var Ég veit ég er ferlega frábær, og þar sem við stóðum við innganginn að sviðinu og dönsuðum og sungum með laginu þá meintum við innilega það sem við vorum að syngja. Stuttu seinna byrjaði sýningin og var hún að mínu mati sú allra besta í leikferðinni. Þarna voru rúmlega 80 manns sem höfðu svo gaman og hlógu svo mikið og krafturinn í leikhópnum var engu líkur. Við fengum að heyra það frá áhorfendum eftir sýninguna að þau hefðu heyrt í okkur syngja lagið okkar baksviðs fyrir sýninguna og sagt við hvort annað: “Þau eru í stuði”. Þetta var æðislegt, og við svifum öll um á bleikum skýjum það sem eftir var kvölds og nætur. Þegar við komum í bústaðinn eftir frágang skáluðum við í freyðivíni og óáfengum sommara til að fagna þessum frábæra hóp og þessari frábæru leikferð, þó hún væri ekki alveg búin. Svo skipti í raun engu hvað við gerðum saman, hvort sem það var potturinn, spjall, spil eða söngur, það var allt gaman. Það fóru allir glaðir að sofa þetta kvöld.

Víðihlíð í Húnaþingi vestra

Þessi síðasti dagur leikferðarinnar byrjaði eins og hinir. Matur, pottur, spjall og fíflagangur. Við gengum frá í bústöðunum áður en við lögðum af stað í Víðihlíð, en Ágúst Þormar var búinn að vera þar frá því klukkan hálf ellefu um morguninn og var búinn að setja upp leikmynd, raða stólum og ýmislegt fleira, dugnaðarforkurinn. Þarna vorum við aðeins farin að lýjast og nokkrir dottuðu dálítið við undirbúninginn, en dugnaður í öllum. Við elduðum lasagne og hvítlauksbrauð í kvöldmatinn, og í eldhúsinu tókum við eitt svakalegasta hláturskast sem heyrst hefur af í Húnaþingi vestra. Smink, hár og uppsetning á leikmynd og leikmunum gekk sinn vanagang og fyrr en varði var komið að þessu. Sýningin var að byrja. Síðasta sýningin og við lögðum allt í hana. Við fengum þarna hátt í 60 áhorfendur sem sumir hlógu á öðrum stöðum en við erum vön, og sýningin gekk vel. Eitt af því allra skemmtilegasta og áhugaverðasta við leikferðir er að samhengi skiptir alltaf máli, því er oft mismunandi eftir stöðum að hverju er hlegið og hversu mikið. En þetta var dásamleg og skrítin tilfinning að klára þarna leikferðina með þessari sýningu. Á svolitlum tíma gengum við frá í húsinu og pökkuðum í bílana.

Það var rigning og mér leið pínulítið eins og það væri fylgni á milli leikgleðinnar okkar og góða veðursins sem við fengum allan tímann, en um leið og leikferðin kláraðist og leikgleðin var komin í pásu þá byrjaði að hellirigna. Sem betur fer tókum við loks ákvörðun um að við yrðum að láta verða af sýningu í Árneshreppi sama hvað, og það létti lundina aðeins þar sem við gátum huggað okkur við að þetta væri ekki alveg búið. Við létum þessa pínulitlu melankólíu þó ekki á okkur fá heldur sungum við og lékum okkur í rútunni á leiðinni heim. Þegar við vorum komin heim til Hólmavíkur og búin að losa bílana var ég afar þakklát og dálítið meyr.

Neistinn

Frá því ég var barn var mér það ljóst að starfsemi á borð við það sem Leikfélag Hólmavíku stendur fyrir sé hverju samfélagi mikilvægt. Ég sá það í kringum mig og mína að það geti vakið gleði bæði hjá þeim sem taka þátt í starfseminni og þeim sem berja afraksturinn augum og ég horfði á þetta allt saman með stjörnur í augum. Ég hef einu sinni áður leikið í leikriti með Leikfélagi Hólmavíkur, þá 16 ára og í svo stórri uppsetningu að ekki var farið með hana í leikferð. Sex árum seinna vildi ég vera með en passaði ekki í neitt hlutverk þannig að ég gerði allt annað sem hægt var í uppsetningunni til að fá að vera með. Nú í ár viðurkenni ég að ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég flutti aftur heim til Hólmavíkur var vegna þess að það er búið að vera draumur minn að leika aftur í uppsetningu á leikriti með Leikfélagi Hólmavíkur. Og það fékk ég.

Þessi leikhópur sko, vá. Svo samrýndur, samstíga, fallegur, góður og fyndinn. Kemur aftur upp þessi Ég veit ég er ferlega frábær fílingur, ég veit. En í mínum huga er þetta satt. Það passa allir upp á hvorn annan og það leggja allir sitt af mörkum í að skapa eitthvað merkilegt, gefa texta á blaði nýtt líf og gleðja fólk. Og þessi hefð – að fara í leikferðir. Hún er að verða útdauð meðal áhugaleikfélaga á landinu, og það er svo mikil synd. Leikfélag Hólmavíkur rígheldur í þessa hefð, og ég hef fulla trú á því að hún sé neistinn sem heldur lífi í félaginu og hefur orðið til þess að það er búinn að vera stanslaus kraftur í félaginu í öll þessi ár. Mig langar því að hvetja alla áhugaleikara sem þetta kunna að lesa að íhuga að taka upp leikferðir aftur. Síðast en ekki síst vil ég þakka ferðafélögum mínum í þessari leikferð kærlega fyrir samveruna þessa fimm daga. Ásdís, Ester, Íris, Svana, Gústi, Matti, Úlfar, Jón, Nonni, Eiríkur og Skúli. Þið eruð ferlega frábær. ♡

Agnes Jónsdóttir, ritari Leikfélags Hólmavíkur

This image has an empty alt attribute; its file name is 64329259_10218456383391801_828432864218447872_n.jpg