December 27, 2024

Jóðlíf ¤ 1996-97 

Sumarið 1996 var komið á laggirnar kaffileikhúsi á Café Riis yfir sumartímann í tengslum við verkefnið Ferðaþjónusta og þjóðmenning á Ströndum. Þá var fluttur leikþáttur og menn drukku bjór eða kaffi með, eftir atvikum.

Frá sýningu á Jóðlífi á Café Riis
Jóðin tvö í Pakkhúsinu

 Þrír þættir voru á dagskrá fyrsta sumarið, Á sama bekkJóðlíf og Um skaðsemi áfengisins. Síðastnefndi þátturinn varð allra leikrita lífseigast, en talið er að Jóðlíf hafi verið sýnt 6 sinnum, áður en leikmyndin var brennd á báli norður í Djúpavík árið 1997. Leikararnir leikstýrðu hvor öðrum og gekk vel, öllum til mikillar furðu.

Jóðlíf er skemmtilegur absúrd gamanleikur sem gerist í móðurkviði. Þar hírast tvíburabræður sem hafa býsna ólíkar skoðanir á lífinu og tilverunni.

Það er afskaplega auðvelt að ruglast í texta leikritsins vegna margvíslegra endurtekninga, en uppsetningin var svo þaulæfð að það kom aldrei fyrir að leikararnir færu svo illilega út af sporinu að þeir fyndu það ekki aftur sjálfur. Leikararnir voru líka þaulvanir og náskyldir bræður.

Það þótti nokkur nýlunda í leikhúslífi, menningarstarfi og ferðaþjónustu að bræðurnir viku aldrei frá þeirri reglu sinni að fara á ærlegt fimmtudagsfyllerí með gestunum að sýningu lokinni.

Sagan segir að bræðurnir hafi reynt að æfa upp verkið aftur löngu síðar, en það hafi ekki heppnast að koma því á koppinn. Einhverjir vilja meina að það sé af því að þeir komist ekki lengur í búningana. Það er argasta vitleysa.

– Okkur vantar myndir !!! –

Höfundur: 

Oddur Björnsson

Hvíslari:

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og fleiri

Leikarar og persónur:

Jóð 1Jón Jónsson
Jóð 2Arnar S. Jónsson

Sviðsmynd, búningar, ljós, leikskrá, leikstjórn og annað smálegt:

Jón Jónsson og Arnar S. Jónsson

Sýningar (5):
Hólmavík (Café Riis) – 18. júlí 1996
Hólmavík (Café Riis) – 25. júlí 1996
Djúpavík – 11. ágúst 1996
Hólmavík (Café Riis) – 24. júlí 1997
Hólmavík (Café Riis) – 31. júlí 1997