December 27, 2024

Glímuskjálfti ¤ 1992 

Glímuskjálfti er farsi þar sem lífleiki og fjör er í fyrirrúmi, atburðarásin er hröð og áður en nokkur veit af er allt komið í næstum óleysanlegan hnút. Að sjálfsögðu rætist þó úr að lokum eins og í öllum góðum försum.

Leikritið Glímuskjálfti var endurbætt af leikstjóra verksins, Herði Torfasyni, fyrir uppsetninguna. Það hafði áður verið sýnt undir nöfnunum Glímukappinn og Orrustan á Hálogalandi. Þessi farsi var mikið sýndur á árunum eftir stríð, en hafði lítið verið leikinn síðustu 15 árin áður en Leikfélag Hólmavíkur setti verkið upp. Mætingin heima fyrir var góð og leikstjórinn fær þau allra bestu meðmæli sem völ er á hjá leikfélaginu. 

Vel gekk að manna stykkið, fyrir utan að leikarinn sem glímdi við hlutverk glímukappans mikla gaf leiklistina upp á bátinn á miðju æfingatímabili. Jón Gísli Jónsson hljóp í skarðið, eins og gerst hefur bæði fyrr og síðar. Hann lenti svo reyndar í óhappi u.þ.b. viku fyrir sýningu þegar að hann stakk sér niður fossinn Sleðamannaskelfi á Steinadalsheiði á vélsleða. Það blæddi inn á vöðva í lærinu, þannig að glímukóngurinn sjálfur þurfti að styðjast við hækjur. Þær notaði hann reyndar ekki inni á sviðinu og gat vel leikið að hann væri óhaltur.

Leikferðin með Glímuskjálfta var ekkert smáræði. Stefnan var tekin á vinabæ Hólmavíkur, Raufarhöfn og sýnt víða á leiðinni. Auk þess brugðu menn sér út á Snæfellsnes. Aðsóknin var víðast hvar ásættanleg, þó var hún afleit á Húsavík og fremur dræm á Kópaskeri. Fjölmenni mætti hins vegar á sýninguna í vinabæ Hólmavíkur á Raufarhöfn.

Höfundur: 

Schwarts og fleiri

Leikstjóri:

Hörður Torfason

Aðstoðarleikstjóri:

Björk Jóhannsdóttir

Persónur og leikarar: 

Hermann HermannsSigurður Atlason
Hekla, kona HermannsSvanhildur Jónsdóttir
Hermann, sonur HermannsArnar Jónsson
Þóra, dóttir HermannsIngibjörg Sigurðardóttir
Vilmundur SveinssonVignir Pálsson
Anne Lise HansenEster Sigfúsdóttir
Agnes TorfasonJensína Pálsdóttir
Zakarías, maður AgnesarJón Jónsson
Hermann Hermanns, glímukappiJón Gísli Jónsson

Hvíslari:

Hildur Björnsdóttir

Ljós:

Jóhann L. Jónsson og Sigurður M. Þorvaldsson

Sviðsmynd:

Ásmundur Vermundsson, Sigurður Atlason og Helga B. Sigurðardóttir

Förðun:

María Guðbrandsdóttir, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir

Búningar:

Helga Gunnarsdóttir

Leikmunir:

Jóhanna S. Jónsdóttir

Sviðsmenn:

Eysteinn Gunnarsson, Jóhanna Signý Jónsdóttir, Helga Björk Sigurðardóttir, Árdís Björk Jónsdóttir og Jóhanna K. Svavarsdóttir

Matráðskona í leikferð:

Ásdís Jónsdóttir

Leikskrá:

Jón Jónsson, Ester Sigfúsdóttir og María Guðbrandsdóttir

Sýningar (14):

Hólmavík – 11. apríl 
Hólmavík – 15. apríl 
Hólmavík – 18. apríl
Hólmavík – 18. apríl
Sævangur – 27. apríl 
Drangsnes – 28. apríl 
Króksfjarðarnes – 1. maí
Lýsuhóll – 2. maí
Laugarbakka – 27. maí
Miðgarður, Varmahlíð – 28. maí
Kópasker – 29. maí
Raufarhöfn – 30. maí
Húsavík – 31. maí
Trékyllisvík – 6. júní