Ekki var hægt að halda löglegan aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur í gær vegna manneklu. Leikfélagið er rótgróin menningarstofnun í samfélaginu í Strandabyggð og biðlar fráfarandi stjórn til íbúa að taka höndum saman svo starfsemi þessa merka félags geti haldið áfram. Lög félagsins kveða á um að fimm meðlimir þurfi að mæta til að aðalfundur teljist löglegur en aðeins fjórir félagar sáu sér fært að mæta og þar af enginn sem gefur kost á sér í stjórn félagsins.
40 ára öflug menningarstarfsemi
Leikfélag Hólmavíkur heldur upp á 40 ára afmæli árið 2021 en starfsemi félagsins hefur verið mjög öflug og eitt til tvö leikverk verið sett upp árlega frá 1981. Þrátt fyrir litla mætingu á aðalfund, virðist töluverður áhugi á starfseminni og margir farnir að hlakka til að setja upp verk að nýju eftir langt hlé vegna samkomutakmarkana. Það er þó ljóst að ekki er nóg að manna hlutverk í leikriti, heldur þarf líka fólk í stjórnina ef félagsskapurinn á að eiga sér farsæla framtíð.
Nýr aðalfundur boðaður í næstu viku
Leikfélagið gerir aðra tilraun til að halda löglegan aðalfund sem haldinn verður fimmtudaginn 21. október 2021, kl. 20 í Hnyðju á Hólmavík. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru nýir og gamlir félagar hvattir til að mæta.