Í leikritinu segir frá Jónatan sem er hinn argasti kvennabósi, á þrjár kærustur sem allar eru flugfreyjur en engin þeirra veit af hinum. Jónatan býr með aldraðri ráðskonu sem passar upp á að ekkert fari úrskeiðis. Þegar Róbert, gamall félagi hans kemur í heimsókn til hans og nýjar hljóðfráar þotur eru teknar í notkun á vinnustöðum kærastanna hans fer allt í stóra flækju sem ekki virðist vera hægt að leysa. Það raknar þó úr hnútnum að lokum.
Sigurður Atlason gerði leikgerð upp úr gamalli bíómynd sem heitir Boeing-Boeing og gaf henni þetta langa en þó athyglisverða nafn. Æfingar fóru fram í hinu ískalda félagsheimili Sævangi. Þær gengu ágætilega fyrir sig.
Leikstjóri verksins hafði fáum árum áður leikstýrt Hólmvíkingum í miklu slagsmálaatriði sem birtist í kvikmyndinni Ingaló í grænum sjó. Ekkert var slegist á æfingum að þessu sinni, þó stundum hafi munað litlu.
Ómældur tími fór í það á æfingatímabilinu að leita að stifttönn sem Siggi Atla missti út úr sér hvað eftir annað. Tönnin fannst alltaf aftur og er enn í Sigga. Einu sinni missti Siggi tönnina út úr sér á sýningu. Hann sá hana fara út úr sér og taka stefnuna út í sal í fangið á gömlum manni á fremsta bekk. Hann tók þá heljarmikið þrístökk yfir sófann á eftir henni, greip hana í loftinu og brotlenti síðan í sófanum. Til að bjarga senunni ákvað Siggi þá að láta eins og stökkið hefði verið hluti af öllu saman og kom sér mjög makindalega fyrir í sófanum, mótleikara sínum til mikillar furðu, því samtalið hafði verið á rólegu nótunum. Krampakastið kom henni því í opna skjöldu.
Sigurður fullyrðir hins vegar að sagan um að tönnin hafi einu sinni spýst upp í mótleikara sé ósönn. Við trúum því.
Farið var í allar leikferðir á einkabílum og margt skemmtilegt kom upp á. Eitt af því sem var eftirminnilegast á þessum ferðalögum var kannski ekkert svakalega skemmtilegt. Það gerðist á sýningunni í Króksfjarðarnesi, en þar beinbrotnaði Siggi Atla í lokaatriðinu. Hann lauk við leikinn með miklum harmkvælum og hagmæltur fréttaritari DV gerði hann landsfrægan með skrifum um atvikið.
Höfundur / leikgerð:
Marc Camoletti / Sigurður Atlason
Leikstjóri:
Ásdís Thoroddsen
Leikarar:
Jónatan | Sigurður Atlason |
Valdís, ráðskona hans | Sigríður Jónsdóttir |
Védís, flugfreyja | Ester Ingvarsdóttir |
Vigdís, flugfreyja | Anna Birna Gunnlaugsdóttir |
Ásdís, flugfreyja | Helga Björk Sigurðardóttir |
Róbert | Sverrir Guðbrandsson |
Hvíslarar:
María Guðbrandsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Hildur Björnsdóttir.
Förðun:
María Guðbrandsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir.
Lýsing:
Sigurður Atlason, Anna Birna Gunnlaugsdóttir.
Búningar:
Sunna Vermundsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir.
Sviðsmynd:
Sigurður Atlason, Kristbjörg Magnúsdóttir, Atli Engilbertsson, Ásdís Thoroddsen og Sigurður Sveinsson.
Sýningar (10):
Sævangur – 29. apríl
Drangsnes – 2. maí
Króksfjarðarnes – 6. maí
Logaland – 7. maí
Hólmavík – 21. maí
Hólmavík – 23. maí
Hólmavík – 26. maí
Lýsuhóll – 29. maí
Mosfellsbær – 3. júní
Árnes – 10. júní