December 27, 2024

Bót og betrun ¤ 2022

Vorið 2022 var sýndur í Sævangi ærslafenginn fimm hurða farsi. Leikritið hét Bót og betrun og er eftir Michael Cooney. Tíu leikarar tóku þátt í uppsetningunni hjá Leikfélagi Hólmavíkur að þessu sinni, fimm karlar og fimm konur, bæði þaulvanir leikarar og nýliðar með leikfélaginu. Leikstjóri var Sigurður Líndal.

Leikfélagið taldi að eftir Covid-tímann, sem þó var ekki aldeilis lokið eins og síðar kom í ljós, væri kominn tími á áhyggjulaust glens og grín sem öll ættu að geta haft gaman af. Bót og betrun er bráðskemmtilegur breskur fimm hurða farsi þar sem misskilningur og flækjur af öllu tagi skapa pínlegar og fyndnar aðstæður. Leikritið gerist rétt fyrir öld snjallsímans og fjallar um bótasvindlarann Eric Swan sem í kjölfar atvinnuleysis fer að svíkja bætur og styrki út úr félagsmálakerfinu með því að búa til bótaþega sem skráðir eru á heimili hans. Nú vill hann losa sig út úr þessum lygavef með því að koma bótaþegunum fyrir kattanef, einum af öðrum, en fulltrúar Félagsmálastofnunar sækja að honum úr öllum áttum. Konuna hans er líka farið að gruna ýmislegt.

Það var mikið um að vera á sviðinu í Sævangi og leikmyndin þurfti að vera traust til að þola atganginn. Það var nóg af tækifærum til að skella upp úr yfir fjörinu og hamagangnum.

Ekki var svigrúm til að fara í leikferð með verkið vegna sauðburðar og annarra anna leikfélaga. Hins vegar er alveg ljóst að uppsetningin var afar mikilvægur liður í að halda lífi í leikfélaginu og fá áhorfendur aftur út úr húsi, eftir langan og strangan Covid-tíma.

Höfundur & leikstjóri:

Höfundur: Michael Cooney
Þýðandi: Hörður Sigurðarson
Leikstjóri: Sigurður Líndal

Persónur og leikendur

Eric SwanEinar Indriðason
Linda SwanSvanhildur Jónsdóttir
Norman McDonaldEiríkur Valdimarsson
JenkinsGuðlaug G.I. Bergsveinsdóttir
Georg frændiJón Jónsson
Sally ChessingtonEster Sigfúsdóttir
Doktor ChampanÚlfar Örn Hjartarson
Hr. ForbrightMatthías Sævar Lýðsson
Fröken CowperHafdís Sturlaugsdóttir
Brenda DixonAnna Björg Þórarinsdóttir

Fólkið bak við tjöldin

Verkstjóri: Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir

Hvíslari: Brynja Rós Guðlaugsdóttir

Ljós og hljóð: Skúli Gautason, Valdimar Kolka Eiríksson og Signý Stefánsdóttir

Smink: Ingibjörg B. Sigurðardóttir og leikhópurinn

Smíðavinna og sviðsmynd: Leikhópurinn, Finnur Ólafsson, Jón K. Vilhjálmsson, Valgeir Örn Kristjánsson og Jamie Lee

Búningar: Leikhópurinn og Sigrún Björg Rafnsdóttir

Leikmundir: Leikhópurinn og Ásta Þórisdóttir

Leikskrá og auglýsingar: Anna Björg Þórarinsdóttir

Teikningar: Sunneva Guðrún Þórðardóttir

Sérstakar þakkir

Uppbyggingasjóður Vestfjarða, Frumkvæðissjóður Sterkra Stranda og sveitarfélagið Strandabyggð fá kærar þakkir fyrir öflugan stuðning við Leikfélag Hólmavíkur á leikárinu.

Fjöldi aðila komu að undirbúningi og lögðu hönd á plóginn og við þökkum þeim öllum: Finnur Ólafsson, Jón Kr. Vilhjálmsson, Valgeir Örn Kristjánsson, Ásta Þórisdóttir, Jamie Lee, Þuríður Signý Friðriksdóttir, Sveinn Þórarinsson og Sigrún Björg Rafnsdóttir.

Einnig viljum við þakka Sauðfjársetrinu fyrir að útvega húsnæði og leikdeild Skallagríms fyrir lán á leikmunum.

Sigurður Líndal fær svo innilegar þakkir fyrir mjög ánægjulegt samstarf.

Sérstakar þakkir fá svo fjölskyldur okkar; makar, foreldrar og börn fyrir að gera okkur kleift með þolinmæði og velvild að sinna þessu tímafreka áhugamáli.

Ekki síst viljum við þakka þér, kæri áhorfandi, fyrir að koma og berja afrakstur æfinganna augum. Án þín væri engin sýning.

Pistill frá leikstjóra

Kæru gestir, velkomin í leikhús! Það er sannarlega ánægjulegt að geta skrifað þessi orð aftur, eftir alltof langt hlé – af ástæðum sem óþarft er að rekja hér.

Þess ber þó að gera að áhugaleikhúsin hafa átt undir högg að sækja um langa hríð, Leikfélag Hólmavíkur er eitt fárra sem enn stendur á landinu, mörg leikfélög eru óvirk og enn fleiri alveg niður lögð. Þó til þess hafi ekki komið enn, verða velunnarar þessa merka félags að vera á varðbergi um að LH fari ekki sömu leið.

Fólkið sem stígur á stokk í kvöld hefur lagt á sig ómælt erfiði og álag af ástríðunni einni saman, og af einlægri ósk um að skemmta ykkur eina kvöldstund.

Góða skemmtun!
Sigurður Líndal

Sýningar

Frumsýning 17. apríl (sun), páskadag, kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
2. sýning 18. apríl (mán), annan í páskum, kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
3. sýning 24. apríl (sun), kl. 20, Félagsheimilið Sævangur

4. sýning 29. apríl (fös), kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
5. sýning 30. apríl (lau), kl. 20, Félagsheimilið Sævangur

Miðaverð var 3.900.- Ókeypis aðgangur var fyrir fólk sem ekki hafði íslensku að móðurmáli. Hægt var að kaupa súpu á Sauðfjársetrinu fyrir leiksýningar. Miða- og súpupantanir voru í s. 693-3474 (Ester).