December 27, 2024

Æsilegur aðalfundur og skýrsla stjórnar

Aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur var haldinn þann 31. júlí 2024. Frekar fámennt var á fundinum, en þó fundarfært. Fundurinn gekk að vonum og voru ársreikningar samþykktir og skýrsla stjórnar lögð fram. Hún fylgir hér á eftir.

Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf og urðu breytingar á stjórn. Brynja Rós Guðlaugsdóttir og Ester Sigfúsdóttir sögðu sig frá stjórnarstörfum, en í stað þeirra voru kjörin Ásta Þórisdóttir og Andri Freyr Arnarson, sem sitja í næstu stjórn ásamt Önnu Björgu Þórarinsdóttur. Grínast var með það á fundinum að nú væri komið að þeim sem væru fremstir í stafrófinu. Var Brynju og Ester þakkað kærlega fyrir vel unnin störf, stjórnin hefur bæði verið samheldin og dugleg, sögðu aðrir fundarmenn og hrósuðu fráfarandi stjórn í bak og fyrir. Ný stjórn á eftir að skipta með sér verkum á sínum fyrsta fundi.

Öll í aðalstjórn voru kosin með vitund og vilja, en í varastjórn voru kosnar þrjár konur, sem ekki voru á fundinum og höfðu ekki gefið kost á sér fyrirfram. Höfðu reyndar heldur ekki lýst sig mótfallnar því bréflega eða í votta viðurvist. Hér er vísbending um breytta tíma í félagastarfi á Ströndum, hér eftir virðist a.m.k. nauðsynlegt að mæta á aðalfundi hjá Leikfélaginu, vilji fólk komast hjá því að vera kosið til ábyrgðarstarfa.

Hér fylgir skýrsla stjórnar til fróðleiks og skemmtunar:

Ársskýrsla Leikfélags Hólmavíkur milli aðalfunda 1. júní 2023 og 31. júlí 2024

Síðasti aðalfundur var haldinn 1. júní 2023, en aðalfund á að halda í apríl samkvæmt samþykktum félagsins. Það náðist hins vegar ekki þá og ekki nú, vegna anna stjórnarmanna. Öll stjórnin bauð sig fram á aðalfundinum 2023 til að sitja áfram í stjórninni – Anna Björg Þórarinsdóttir, Brynja Rós Guðlaugsdóttir og Ester Sigfúsdóttir. Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi og voru hlutverkin þau sömu og áður: Anna Björg formaður, Brynja gjaldkeri og Ester ritari.  Þrír formlegir stjórnarfundir hafa verið haldnir á þessu starfsári og fjölmargir óformlegir.

Tveir styrkir fengust á starfsárinu til að halda námskeið fyrir börn. Sumarnámskeið var í júní 2023 og var Rakel Ýr Stefánsdóttir leikkona ráðin til að sjá um það. Námskeiðið var haldið 5.-9. júní og var fyrir börn fædd 2011-2016. Ekkert þátttökugjald var á námskeiðinu. Þátttaka var mjög góð, 27 börn úr Strandabyggð, Kaldrananeshreppi og Reykhólum tóku þátt og gleðin var við völd.

Einnig var haldið (leikhús)spuna-námskeið vorið 2024 í samvinnu við Púkann, barna­menningar­hátíð á Vestfjörðum sem Inga Steinunn Henningsdóttir stjórnaði. Leiklistarnámskeiðið var fyrir yngsta stig Grunnskólans á Hólmavík, á því námskeiði voru 11 börn. Svo var líka opinn spunatími í Pakkhúsinu á Café Riis, þangað komu 25 börn úr Strandabyggð og Kaldrananeshreppi. Heppnaðist þetta allt saman mjög vel og var allt saman ljómandi skemmtilegt.

Síðstliðið haust var að setja upp leikrit á nýju ári. Talið var mikilvægt að bjóða upp á gamanleik, bæði til að fá leikara til að taka þátt og áhorfendur til að mæta. Skúli Gautason var ráðinn leikstjóri og fær hann bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. Farið var í að leita að verki og fjölmörg handrit skoðuð og lesin í hóp, þar sem misjafnlega margir leikfélagar hittust. Í lokin fór það þó svo, að það rétt náðist að manna fimm manna leikrit. Farsinn Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield varð fyrir valinu og fyrsti samlestur var í febrúar. Fengum við til liðs við okkur tvær ungar stúlkur til að sjá um förðun, öflugar mæðgur sáu um ljósin og voru ansi hreint duglegar að vinna í leikmyndinni, en annars komu óvenju margir að uppsetningu á leikmynd og ljósum að þessu sinni á stækkuðu leiksviði. Rúmlega 20 manns unnu beinlínis að sýningunni.

Leikstjórinn vildi æfa og sýna í Sævangi, eins og hefur nú verið gert fjórum sinnum á síðustu árum, í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum. Sævangur er heppilegt leikhús, þar er afbragðs hljómburður og húsið heldur þéttingsfast utan um bæði leikara á sviði og áhorfendur í sal. Eins er þar minni hætta á árekstrum við aðra viðburði á þessum tíma ársins og nú hefur skólahald verið tvo vetur í röð í félagsheimilinu á Hólmavík. Leikritið sjálft var svo frumsýnt 30. mars við mikinn fögnuð áhorfenda og sýndar fimm sýningar, lokasýning var 18. apríl. Ekki var farið í leikferð.

Leikfélagið var líka samstarfsaðili grunnskólanna á Drangsnesi og Hólmavík við uppsetningu á sýningunni Ævintýraferð að miðju jarðar. Þar var um að ræða gríðarstórt leiklistarverkefni þar sem leikrit var sett upp á Drangsnesi með þátttöku skólans þar og miðstigs skólans á Hólmavík. Tvær sýningar voru á verkinu sem byggir á ævintýri Jules Vernes (Leyndardómar Snæfellsjökuls) og var hér á ferðinni ný leikgerð eftir Kolbrúnu Ernu Pétursdóttir sem einnig leikstýrði verkinu. Sýnt var í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

Grunnskólinn á Drangsnesi hefur nú fengið vænan styrk úr Barnamenningarsjóði til verkefnisins Goðdalir, sviðslistasmiðju barna, sem einnig verður unnið í samstarfi við leikfélagið og fleiri aðila í héraðinu og á landsvísu. Sú smiðja spannar heilt skólaár og er unnið þvert á listgreinar. Verkefnið byggir á norrænni goðafræði og leikverk verður sýnt í apríl á næsta ári.

Félagið hefur á leikárinu notið stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Sterkum Ströndum, Sparisjóði Strandamanna og Orkubúi Vestfjarða og ýmsum þeim sem auglýsa í leikskrá félagsins sem að þessu sinni var dreift í hús á Ströndum og Reykhólahreppi. Ríkið styrkir líka sýningar sem aðilarfélög Bandalags íslenskra leikfélaga setja upp og Leikfélag Hólmavíkur er í þeim samtökum.

Þá er ekki síður mikilvægt að þakka öllum þeim sem rétta okkur hjálparhönd við margvísleg tækifæri, tala fallega um starfsemi leikfélagsins, vinna sem sjálfboðaliðar við undirbúning og á bak við tjöldin í tengslum við leiksýningar. Líka þeim sem eru tilbúnir til að standa í sviðsljósinu. Ekki má heldur gleyma öllum þeim sem mæta á sýningar, án áhorfenda væri ekkert leikhús.

Starfsemi félagsins er kynnt á fésbókarsíðu þess og vefnum www.leikholm.is.

Stjórnin þakkar fyrir sig, tjaldið fellur!