Það tókst að halda aðalfund hjá Leikfélagi Hólmavíkur 21. október og var þetta þriðja tilraun. Áður hafði mistekist vegna ónógrar þátttöku og raunar var áhugaleysi um stjórnarsetu á þessum óvissutímum líka þekkt vandamál. Formaðurinn hafði með sér eyðublað um niðurlagningu félagsins á fundinn, en ekki kom til þess að það væri notað. Á fundinum voru rædd framtíðarplön og hefðbundin aðalfundarstörf voru að sjálfsögðu líka á dagskrá. Gerð var lagabreyting um að þrjá þyrfti í stjórn félagsins og ákveðið að hafa aðalfund að vori framvegis. Nokkur vandræði voru með mönnun í stjórnina, en að endingu voru Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir, Jón Jónsson og Úlfar Hjartarson kosin í aðalstjórn, en Valdimar Eiríksson, Svanhildur Jónsdóttir og Ásdís Jónsdóttir eru varamenn í stjórn.
Stjórn var falið að kanna hvort mögulegt væri að taka leikritið Stellu í orlofi upp og sýna það fyrir jól, en ella að sett yrði upp nýtt leikrit í vor.