December 28, 2024

Aðalfundur hjá Leikfélaginu tókst!

Það tókst að halda aðalfund hjá Leikfélagi Hólmavíkur 21. október og var þetta þriðja tilraun. Áður hafði mistekist vegna ónógrar þátttöku og raunar var áhugaleysi um stjórnarsetu á þessum óvissutímum líka þekkt vandamál. Formaðurinn hafði með sér eyðublað um niðurlagningu félagsins á fundinn, en ekki kom til þess að það væri notað. Á fundinum voru rædd framtíðarplön og hefðbundin aðalfundarstörf voru að sjálfsögðu líka á dagskrá. Gerð var lagabreyting um að þrjá þyrfti í stjórn félagsins og ákveðið að hafa aðalfund að vori framvegis. Nokkur vandræði voru með mönnun í stjórnina, en að endingu voru Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir, Jón Jónsson og Úlfar Hjartarson kosin í aðalstjórn, en Valdimar Eiríksson, Svanhildur Jónsdóttir og Ásdís Jónsdóttir eru varamenn í stjórn.

Stjórn var falið að kanna hvort mögulegt væri að taka leikritið Stellu í orlofi upp og sýna það fyrir jól, en ella að sett yrði upp nýtt leikrit í vor.