Stjórn Leikfélagsins fékk þá hugmynd vorið 2018 að bjóða sveitarfélaginu Strandabyggð í samstarf um leiklistartengt verkefni í vinnuskólanum með svipuðu sniði og Náttúrubarnaskólinn hafði gert sumarið áður. Sótt var um styrki til verkefnisins og tóku allir aðilar mjög jákvætt í verkefnið.
Auglýst var eftir leikstjóra til að stýra verkefninu og var leikarinn Rakel Ýr Stefánsdóttir ráðin. Þrjár stúlkur tóku þátt í verkefninu, þær Bára Örk Melsted, Alma Lind Ágústsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir.
Á Hamingjudögum sýndu þær frumsamið stuttverk, „Strandanornir” sem þær sömdu upp úr þjóðsögum af Ströndum. Á Hamingjudögum voru þær einnig með spádómsgjörning sem þær endurtóku svo á Náttúrubarnahátíð. Í júlí hætti Ingibjörg og tvíeykið Alma og Bára héldu áfram. Þær sýndu nú „Strandanornir” aftur á Náttúrubarnahátíð og Reykhóladögum þó þær
væru bara tvær.
Þær skipulögðu einnig skemmtikvöld á Café Riis „open mic” þar sem fólk gat stigið á stokk og flutt ýmis verk sín eða annarra, en þær fluttu einnig eigin texta sem þær höfðu unnið að í skapandi skrifum í verkefninu. Þessir textar voru svo uppistaðan í litlu leikverki sem þær settu saman og kallaðist Of (S)ein og var það flutt þrisvar sinnum í Félagsheimilinu á Hólmavík.
Of(s)EIN
Höfundur: Bára Örk Melsted, Alma Lind Ágústsdóttir, Rakel Ýr Stefándsdóttir
Leikstjóri: Rakel Ýr Stefánsdóttir
Þátttakendur: 3
Sýningafjöldi: 3
Áhorfendur: 30
Meðfylgjandi myndir tók Jón Jónsson á lokasýningu 1. ágúst 2018.