Ef ekkert væri sminkið er ansi hætt við að leiksýningin yrði áhrifalítil. Leikararnir yrðu bara eins og hvítar klessur á sviðinu í sterkum leikhúsljósunum. Ljósin eru aftur á móti sett upp til þess að menn séu ekki eins og fífl með allan þennan farða framan í sér.
Farðinn sem mismjúkhentar förðunardömurnar klína framan í saklausa leikara fyrir sýningu getur breytt fólki ótrúlega á örskömmum tíma. Ekkert er ómögulegt þegar góð sminka lætur ljós sitt skína og gamminn geysa.
Í gegnum tíðina hafa litlir hérar, blóði drifin illmenni, sæðisfrumur, náfölir læknar, grimmir refir, fríðar meyjar, gamlir garðyrkjumenn, sturlaðir nasistar og allar aðrar mögulegar og ómögulegar útgáfur af mönnum og dýrum streymt af förðunarfæribandi Leikfélags Hólmavíkur.
Leikfélagið hefur alið af sér marga ágæta förðunarmeistara. Eða kannski voru þeir meistarar í faginu áður en þeir gengu til liðs við leikfélagið. Þarna eru konur í miklum meirihluta, það eru ekki nema einstaka karlmenn sem viðurkenna að þeir kunni að mála sig. Magnús Rafnsson farðaði sig til dæmis alltaf sjálfur, en margir hinna geta ekki einu sinni þrifið framan úr sér hjálparlaust.
María Guðbrandsdóttir farðaði leikara í Leikfélagi Hólmavíkur í mörg ár og þótti með eindæmum snjöll. Salbjörg Engilbertsdóttir er einnig sérlega góð sminka þó viðkvæmum sálum finnist hún vera heldur harðhent. Heyrst hefur að hún noti vírbursta til að púðra yfir meikið.
Sumar förðunarvörur hafa orðið vinsælli hjá meðlimum leikfélagsins en aðrar, eins undarlega og það hljómar. Þar ber langhæst undrakremið Under make up base, en það hefur bjargað mörgum leikaranum frá ofnæmi, bólum og útbrotum. Það er svo vinsælt að því var troðið inn í einkennissöng leikfélagsins:
Það er svo gaman að leika,
það er svo gaman að leika,
það er svo gaman að leeeikaaaaaa
og Under-make-up-base!
Bandalag íslenskra leikfélaga stendur stundum fyrir námskeiðum í förðun sem aðildarfélögum er velkomið að taka þátt í. Það hefur leikfélagið nýtt sér í gegnum tíðina og sent fólk til náms. Námskeið í förðun var líka eitt sinn fyrir lánga löngu haldið á Hólmavík – árið 1992 – með býsna skemmtilegum árangri.