December 28, 2024

Hvíslarahorn

Hvíslarar eru hinar leyndu hetjur leikhúsanna. Sem betur fer er það nú ekki á mörgum leiksýningum þar sem hvíslarinn er í aðalhlutverki. En samt er hann yfirleitt nærri alveg ómissandi, fannst manni alltaf. Þó er allnokkuð síðan hætt var að hafa hvíslara á sýningum hjá leikfélaginu. En á æfingunum, þarf hvíslara og skriftu.

Það er kúnst að hvísla. Yfirleitt tekst að gabba einhvern til að taka að sér hlutverk hvíslarans, einhvern sem hefur áhuga á leiklistinni eða félagsskapnum í leikfélaginu. Þetta er samt auðvitað alveg jafn mikil vinna og viðvera fyrir þá og leikarana.

Leikfélag Hólmavíkur hefur haft marga góða hvíslara og líka afar stressaða eða yfirmáta afslappaða. Stressaður hvíslari flettir rennsveittur fram og aftur í handritinu og fer á taugum í hvert sinn sem einhver segir t.d. „Drullastu út, hundaskíturinn þinn!“ í staðinn fyrir: „Snáfið þér út, hundsspottið yðar!“, eins og stendur í handritinu.

Í afslappaða flokkinn fellur tvímælalaust Ásdís Jónsdóttir sem hvíslaði (aldrei) í leikferðinni með leikritið Skjaldhamra sem sýnt var 1991. Einu sinni var komið að henni á sýningu þar sem hún steinsvaf í hvíslarastólnum. Í annað sinn uppgötvaðist að hún var búin að koma Vikunni haganlega fyrir inn í handritinu og var að lesa í henni í staðinn fyrir að fylgjast með.

Guðmundína A. Haraldsdóttir hvíslaði að leikurum í Markólfu án handrits. Hún ruglaðist alltaf í því svo hún ákvað að læra frekar allan textann og var býsna góður hvíslari.

Reyndasti og að margra mati langbesti hvíslari Leikfélags Hólmavíkur er Hildur Björnsdóttir sem hvíslaði í fjölmörgum leikritum á tímabilinu 1990-1995.

Hvíslarar þurfa að velja orð sín vandlega. Sérstaklega verða þeir að fylgja þeirri höfuðreglu að hvísla aldrei, hvað sem á dynur, heldur tala upphátt þegar þeir þurfa að koma skilaboðum á sviðið. Svo mega þeir heldur aldrei hvísla því sem stendur í svigunum.

Af hverju eru aldrei hvíslaranámskeið í Leiklistarskóla Bandalagsins???