December 28, 2024

Sögustund

Stutta útgáfan 😉 Leikfélag Hólmavíkur var stofnað 3. maí 1981. Áður hafði þó löngum verið leikið á Ströndum, undir merkjum ýmissa ólíkra félagasamtaka. Félagið hefur sett upp fjölda leikrita. Leikfélagið er þátttakandi í Bandalagi íslenskra leikfélaga.

Langa útgáfan 😉 Leikfélagið er góður félagsskapur, vettvangur þar sem gott er að kynnast góðu og áhugaverðu fólki. Það er með ólíkindum hvað það er þroskandi að vinna að því að setja upp leikrit. Svo er líka margt fleira sem eitt leikfélag gerir. Stundum hefur félagið staðið fyrir námskeiðum í héraðinu. Svo eru líka haldin sérlega vel heppnuð partí öðru hverju og af og til horfir fólk saman á gamlar upptökur af leikritum eða úr leikferðum. Svo hafa leikfélagar leikið í kvikmyndum, gert útvarpsþátt, haldið skemmtikvöld, staðið fyrir sprelli á hátíðisdögum, sungið, samið og dansað. Möguleikarnir til að gera skemmtilega hluti í leikfélagi er vægast sagt óendanlegir.

Arnlín leikstjóri á 10 ára afmælinu

Okkur vantar alltaf fleira fólk!!!

Hefur þú áhuga á að stíga á svið eða starfa við leiklistina? Þá er um að gera að ganga til liðs við Leikfélagið. Margar hendur vinna létt verk og að mörgu er að huga öðru en leiknum sjálfum; leiktjöldum, búningum, lýsingu, leikskrám og skemmtunum. Leikfélög eru skemmtilegur félagsskapur sem gaman er að starfa með. Það er líka hverju leikfélagi lífsnauðsyn að sífellt mæti nýtt fólk með nýjar hugmyndir til starfa. 

Heiðursfélagar í Leikfélagi Hólmavíkur:

Friðrik Runólfsson (f. 26. júní 1922, d. 22. maí 1991) var gerður að heiðursfélaga í Leikfélagi Hólmavíkur á 10 ára afmæli þess. Hann var einn af máttarstólpum félagsins og lék í mörgum uppsetningum eftir að það var stofnað, auk fjölda hlutverka í alls kyns leikritum á Ströndum fyrir formlega stofnun Leikfélagsins. Það var sama með hvaða hlutverk Friggi fór, hvort hann lék prestinn, biskupinn, lækninn eða sýslumanninn. Allt var það jafn vel gert. Þó var mest um vert að njóta félagsskapar hans, því Friggi okkar var með eindæmum jákvæður og var með í öllu sem gert var af lífi og sál. Leikfélagið á honum mikið að þakka.