December 28, 2024

Blessað barnalán ¤ 1983 

Nú var leikinn gamanleikur eftir Kjartan Ragnarsson. Æfingar hófust í endaðan febrúar og vel gekk að manna hlutverkin í upphafi. En eftir nokkrar æfingar kastaði Sigurður Atlason hempunni og fór á togara. Þá þurfti að fá nýjan klerk og féllst Matthías Lýðsson á að taka presthlutverkið í fóstur.

Aðalbjörg Þorsteinsdóttir æfði hlutverk Ingu þar til nokkrum dögum fyrir frumsýningu, en þá kenndi hún lasleika og varð að gefa hlutverkið frá sér. Þá var tekin ný leikkona inn í hópinn, Rut Bjarnadóttir, sem tók við hlutverki Hrafnhildar, sem hafði æft Erlu Dögg, en Hrafnhildur tók við af Aðalbjörgu. Þetta var talið happadrýgra því einungis nokkrir dagar voru til frumsýningar og Hrafnhildur hafði fylgst með æfingum frá upphafi. Ekki þurfti því að fresta frumsýningu.

Það vildi reyndar svo til að í leikritinu er Inga piparjúnka, sem aldrei hefur verið við karlmann kennd og ætlar sér það ekki. En það var allt annað mál með Hrafnhildi, því hún átti von á sínu öðru barni. Svo það lá dálítið á að klára sýningar áður en mikið færi að sjást á henni. Eftir fyrri sýninguna á Drangsnesi gerði vitlaust veður svo að leikfélagarnir urðu að gista á Drangsnesi og voru síðan sóttir morguninn eftir í miklum flýti, þannig að leikmyndin var skilin eftir. Þetta veður stóð lengi yfir.

Í endaðan júní var farið að huga að verkinu aftur, það var æft upp, og síðan farið á Drangsnes og sýnt þar aftur, fyrst að leikmyndin stóð þar enn. Á þeirri sýningu og annarri á Hólmavík, sem báðar voru vel sóttar, var piparjúnkan Inga farin að þykkna svo ískyggilega mikið undir belti að áhorfendur höfðu á tilfinningunni að hún væri hreint ekki öll þar sem hún væri séð.

– MYNDIR ÓSKAST –

Höfundur: 

Kjartan Ragnarsson

Leikstjóri:

Kristín Bjarnadóttir

Aðstoðarmaður leikstjóra:

Hrefna Sigurðardóttir

Persónur og leikarar:
 

ÞorgerðurAnna Jónsdóttir 
IngaHrafnhildur Guðbjörnsdóttir
AddýDrífa Hrólfsdóttir
MaríaGuðmunda Ragnarsdóttir
Erla DöggRut Bjarnadóttir
  Þórður Haraldur V.A. Jónsson
Séra BenediktMatthías Lýðsson
Lóa, kona hansHrefna Sigurðardóttir
Bína á löppinniKatrín Sigurðardóttir
Tryggvi læknirKristján Jónsson
Tryggvi ÓlafurFriðrik Runólfsson
BiskupinnFriðrik Runólfsson

Sviðsmynd: 

Ásmundur Vermundsson, Benedikt Grímsson, Eyjólfur K. Emilsson, Hörður Ásgeirsson, Jóhann Skúlason o.fl.

Búningar og sviðsmunir:

Alma Brynjólfsdóttir, Ragna Þóra Karlsdóttir og Rut Bjarnadóttir.

Lýsing:

Magnús H. Magnússon og Ragnar Ölver Ragnarsson.

Sýningar (5):

Hólmavík – 9. apríl
Hólmavík – 10. apríl
Drangsnes – 15. apríl
Drangsnes – 25. júní
Hólmavík – 28. júní