December 28, 2024

Söguleg frumsýning í Trékyllisvík 1981

(frásögn eftir Eyjólf Kjalar Emilsson)

Leikritið Björninn eftir Anton Tchekov var fyrsta verkefni Leikfélags Hólmavíkur. Leikfélagið var stofnað í maí 1981 og því kom sú ákvörðun Sýslunefndar Strandasýslu að halda Menningarvöku sumarið 1981 sem himnasending fyrir félagsmenn og leikfélagar voru harðákveðnir í að taka þátt þótt lítill tími væri til stefnu.

Eyjólfur og Alma í hlutverkum sínum í Trékyllisvíkinni

Nokkur titringur fór um leikhópinn þegar út spurðist að von væri á Vigdísi Finnbogadóttir forseta í heimsókn á Menningarvökuna, og allar líkur á að hún, alþekktur leikhúsfrömuður og fræðingur, myndi koma á sýningu. Raunar fór það svo að forsetinn mætti á frumsýninguna norður í Trékyllisvík og sat þar á fremsta bekk ásamt öðrum fyrirmönnum.

Þessi fyrsta sýning Leikfélags Hólmavíkur fór vel af stað og allt gekk vel, þangað til Grigori Stephanovitsj Smirnov kom inn og flutti langan reiðilestur, hátt í tvær blaðsíður. En það hafði verið samkomulag milli Eyjólfs og Ölmu að þegar hann byrsti sig mikið undir lok ræðunnar myndu þau skipta um stöðu á sviðinu. En Grigori byrsti sig aldrei sérlega mikið, þannig að Alma hreyfði sig hvergi. Þá var Eyjólfur á vitlausum stað á sviðinu og ruglaðist í textanum svo að Alma vissi að vonum ekkert hvað hún átti að segja. Hvíslaranum heyrðu þau ekkert í, sennilega hefur hann tekið hlutverk sitt of bókstaflega. Svo að þau stóðu og hvæstu á hvort annað í óratíma, og forsetinn á fremsta bekk skellihló að öllu saman, en heimamenn sátu rjóðir og stjarfir af skömm.

Sýning í Svæangi nokkru síðar

Þessir frumherjar Leikfélags Hólmavíkur óskuðu þess einskis fremur en að sökkva niður úr sviðinu. En ekkert slíkt gerðist, svo að Eyjólfur tók loks af skarið, hneigði sig pent, eins og hann hafði séð einhvern tíma í leikhúsi og bað áhorfendur að hafa þau afsökuð. Þau fór á bakvið og leystu sín mál og byrjuðu svo aftur, að vísu nokkru fyrr en frá var horfið, eins og ekkert hefði í skorist.

Vigdís forseti sagði eftir á að framkoma af þessu tagi væri algjört nýmæli í leikhúsi, og sagði síðar frá þessu tiltæki víða um lönd. Þarna á þessari fyrstu leiksýningu Leikfélags Hólmavíkur sannaðist sannarlega hið fornkveðna, að fall er fararheill.

[Höf.: Eyjólfur Kjalar Emilsson]