December 28, 2024

Vel heppnað sumarnámskeið: 25 þátttakendur

Sumarið 2023 bauð Leikfélag Hólmavíkur upp á leiklistarnámskeið á Hólmavík fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og var það haldið dagana 5.-9. júní. Námskeiðið var gjaldfrjálst, þar sem styrkur frá Sterkum Ströndum dugði til að borga laun fyrir kennarann. Það var Rakel Stefánsdóttur leikkona og leikstjóri sem sá um námskeiðið. Þátttakendur voru 25 talsins og komu úr þremur sveitarfélögum.

Rakel er kunnug Ströndum og leikfélagsfólki, þar sem hún sá á sínum tíma um verkefnið Strandir í verki – skapandi sumarstarf fyrir unglinga sem var í gangi á vegum sveitarfélagsins Strandabyggðar og Leikfélagsins á árunum 2018-2019. Hún er útskrifuð af leiklistarbraut Listaháskóla Íslands og hefur leikstýrt börnum og unglingum, auk þess að halda leiklistanámskeið fyrir börn.

Börnin voru mjög ánægð með námskeiðið og við leikfélagsfólk gleðjumst við yfir því að geta aukið á fjölbreyttni tómstundastarfs á svæðinu, gefið börnunum þjálfun í leiklist, tjáningu og framkomu, og að börn úr nágrannasveitarfélögum hafi tekið þátt. Það er í anda starfsemi leikfélagsins, en þátttakendur úr bæði Kaldrananeshreppi og Reykhólahreppi taka virkan þátt í starfsemi þess. Leikfélagið stóð einmitt fyrir námskeiði fyrir unglinga í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík síðastliðið haust og hefur margoft staðið fyrir verkefnum með unga fólkinu í sveitarfélaginu.

Námskeiðið var skipulagt í samstarfi við Strandabyggð og sveitarfélagið skaffaði húsnæði, auk þess sem sumarstarfsmaður á þess vegum aðstoðaði í kennslustundum. Börnin lærðu spuna í leiklist og bjuggu til sín eigin leikrit, en inn í allt fléttaðist kennsla í tjáningu, hugmyndaflæði og styrking á sjálfsmynd.

Leikfélagið þakkar Rakel kærlega fyrir vel heppnað námskeið, krökkunum fyrir þátttökuna, samstarfsaðilum og Sterkum Ströndum fyrir stuðninginn.