Þann 1. júní 2023 var aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur haldinn á Kaffi Galdri á Hólmavík. Mæting var í góðu lagi og á fundinum voru 10 félagar. Stjórnin gaf kost á sér áfram og var endurkjörin, en hana skipa áfram þær Anna Björg Þórarinsdóttir formaður, Brynja Rós Guðlaugsdóttir gjaldkeri og Ester Sigfúsdóttir ritari. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskránni, reikningar lagðir fram og fjörugar umræður urðu um komandi leikár. Meðal annars var rætt um að hittast reglulega næsta vetur til að lesa saman leikrit og áhugi kom fram á að einhverskonar skrifsmiðja yrði haldin að hausti. Uppsetning á leikriti er svo auðvitað einnig á dagskrá og ólíkar hugmyndir komu fram, t.d. um að setja ætti upp gott skemmtilegt barnaleikrit og fá unga fólkið til þátttöku eða kannski eitthvað gamalt og gott eins og Skugga-Svein eða Þrjá skálka.
Skýrsla stjórnar (milli aðalfunda 27. apr. 2022 og 1. júní 2023)
Síðasti aðalfundur var haldinn 27. apríl 2022. Aðalfund á að halda í apríl samkvæmt lögum félagsins en það náðist ekki núna í vor, vegna anna stjórnarmanna. Öll í síðustu stjórn sögðu sig frá stjórnarstörfum á síðasta aðalfundi og þrjár vaskar konur buðu sig í staðinn fram – Anna Björg Þórarinsdóttir, Brynja Rós Guðlaugsdóttir og Ester Sigfúsdóttir. Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi og voru hlutverkin þannig: Anna Björg formaður, Brynja gjaldkeri og Ester ritari. Fjórir formlegir stjórnarfundir hafa verið haldnir á þessu starfsári og fjölmargir óformlegir.
Fyrri stjórn hafði fengið styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða fyrir uppsetningu leikrits fyrir unglinga sem hluti af Þjóðleik. En þetta frábæra verkefni Þjóðleikhússins féll niður að þessu sinni og fengum við leyfi til að nýta styrkinn í námskeið fyrir unglinga. Sigfús Snævar Jónsson sem er nýútskrifaður af leiklistarsviði Kvikmyndaskólans var fenginn til að leiðbeina á námskeiði fyrir nemendur á grunnskólaaldri í samvinnu við skólana á svæðinu og dvaldi við það hér nyrðra í viku. Einnig var ákveðið að bjóða samhliða upp á tvö kvöldnámskeið með leikjum og spuna fyrir fullorðna. Námskeiðin voru haldin síðasta haust og heppnaðist þetta vel og námskeiðin voru ljómandi skemmtileg.
Mikil stemmning var fyrir því að setja upp leikrit á nýju ári. Gerð var könnun á því hverjir vildu taka þátt í uppsetningu og leikrit ákveðið með tilliti til þess. Farið var í að leita að verki og nokkur handrit skoðuð og lesin í hóp þar sem leikfélagar hittust, einnig kom upp hugmynd að skrifa saman leikrit, en það var fallið frá þeirri hugmynd í bili. Skúla Gautason var ráðinn leikstjóri. Á hann miklar þakkir skilið fyrir ánægjulegt samstarf. Stjórnin, leikarar og leikstjóri tóku svo ákvörðun í sameiningu um að leikritið Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backmann yrði fyrir valinu. Átta leikarar tóku þátt og fyrsti samlestur var í febrúarbyrjun. Fengum við til liðs við okkur þrjár ungar konur frá Drangsnesi til að sjá um förðun. Talið var mikilvægt að bjóða upp á gamanleik, bæði til að fá leikara til að taka þátt og áhorfendur til að mæta.
Leikstjórinn vildi æfa og sýna í Sævangi og varð það niðurstaðan. Í húsinu er afbragðs hljómburður og það heldur þétt utan um bæði leikara á sviði og áhorfendur í sal. Eins er þar minni hætta á árekstrum við aðra viðburði á þessum tíma ársins. Leikritið var svo frumsýnt 26. mars og sýndar fimm sýningar, lokasýning var 8. apríl. Ekki var farið í lengri leikferð.
Nokkrir leikarar úr leikfélaginu tóku þátt í kvikmyndatökum í Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði í lok apríl. Þar voru leikstjórar í Listaháskóla Íslands að vinna að námsverkefnum.
Um áramótin fékkst styrkur úr Sterkum Ströndum til að halda sumarnámskeið fyrir börn og verður það haldið núna í byrjun júní og hefur Rakel Ýr Stefánsdóttir leikkona verið ráðin til að sjá um það. Námskeiðið er á dagskránni 5.-9. júní og er fyrir börn fædd 2011-2016. Ekkert þátttökugjald verður á námskeiðinu og stjórn Leikfélagsins er mjög stolt af því að geta lagt slíkt af mörkum til samfélagsins.
Félagið hefur á leikárinu notið stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Sterkum Ströndum, Sparisjóði Strandamanna og Orkubúi Vestfjarða og ýmsum þeim sem auglýsa í leikskrá félagsins sem að þessu sinni var dreift í hús á Ströndum og Reykhólahreppi, auk þess að liggja frammi ókeypis á sýningum. Ríkið styrkir líka sýningar sem aðilarfélög Bandalags íslenskra leikfélaga setja upp og Leikfélag Hólmavíkur er í þeim samtökum. Samningur við sveitarfélagið Strandabyggð um árlegan fjárhagsstuðning og samvinnu rann hins vegar út um síðustu áramót og sveitarfélagið hafði ekki áhuga á að endurnýja samninginn. Þetta er miður, en við viljum samt þakka Strandabyggð kærlega fyrir stuðninginn við þessa menningarstarfsemi á liðnum árum.
Þá er ekki síður mikilvægt að þakka öllum þeim sem rétta okkur hjálparhönd við margvísleg tækifæri, tala fallega um starfsemina, vinna sem sjálfboðaliðar við undirbúning og á bak við tjöldin í tengslum við leiksýningar. Líka þeim sem standa í sviðsljósinu. Ekki má svo heldur gleyma öllum þeim sem mæta á sýningar, án áhorfenda væri ekkert leikhús.
Starfsemi félagsins er kynnt á fésbókarsíðu þess og vefnum www.leikholm.is.
Stjórnin þakkar fyrir sig, tjaldið fellur!