Leikritið Maður í mislitum sokkum, eftir Arnmund Backman var sett upp vorið 2023. Skúli Gautason var leikstjóri og átta leikarar tóku þátt í sýningunni. Æfingatímabilið gekk vel og það var heldur betur glatt á hjalla. Æfingar voru oft frekar snemma dags, sem er óvenjulegt, klukkan fjögur eða fimm. Það kom að mörgu leyti vel út.
Leikritið sjálft er gamanleikur sem fjallar um ekkjuna Steindóru sem situr uppi með minnislausan mann í mislitum sokkum. Þetta kemur henni í mjög skrýtna stöðu sem vinir hennar reyna að hjálpa henni með, hver með sínum hætti. Þegar líður á mæta ættingjar til að vitja um manninn og þá verður handagangur í öskjunni.
Frumsýnt var kl. 16 á sunnudegi, sem er líka óvenjulegt, en gekk ágætlega. Aðsóknin var í góðu lagi, um það bil 50-75 manns mættu á sýningar. Fjöldi gesta sem kom yfir fjall vakti athygli.
Höfundur & leikstjóri:
Höfundur: Arnmundur Backman
Leikstjóri: Skúli Gautason
Persónur og leikendur:
Steindóra | Ester Sigfúsdóttir |
Maður í mislitum sokkum | Einar Indriðason |
Fríða | Ásta Þórisdóttir |
Bjarni | Jón Jónsson |
Lilja | Ingibjörg B. Sigurðardóttir |
Dóri | Svanur Kristjánsson |
Ósk | Anna Björg Þórarinsdóttir |
Þóra | Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir |
Fólkið bak við tjöldin
Hvíslari: Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir
Ljós og hljóð: Skúli Gautason
Smink: Hildur, Karen og Matta
Smíðavinna og sviðsmynd: Leikhópurinn, Matthías Lýðsson, Úlfar Örn Hjartarson
Búningar: Leikhópurinn
Leikskrá og auglýsingar: Anna Björg Þórarinsdóttir
Teikning: Sunneva Guðrún Þórðardóttir
Afgreiðsla og undirbúningur sýninga: Úlfar Örn Hjartarson, Dagrún Ósk Jónsdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir, Kormákur Elí Daníelsson.
Sérstakar þakkir
Uppbyggingasjóður Vestfjarða og Frumkvæðissjóður Sterkra Stranda fá kærar þakkir fyrir öflugan stuðning við Leikfélag Hólmavíkur á leikárinu. Einnig viljum við þakka Sauðfjársetrinu fyrir að útvega húsnæði með öllu því brasi sem því fylgir.
Skúli Gautson fær svo innilegar þakkir fyrir mjög ánægjulegt samstarf. Sérstakar þakkir fá svo fjölskyldur okkar fyrir að gera okkur kleift með þolinmæði og velvild að sinna þessu tímafreka áhugamáli.
Ekki síst viljum við þakka þér, kæri áhorfandi, fyrir að koma og berja afrakstur æfinganna augum. Án þín væri engin sýning.
Pistill frá leikstjóra
“Einu sinni tók ég þátt í uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi og lék hlutverk Marteins skógarmúsar (það er vinur Lilla klifurmúsar sem segir hina frægu setningu: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir). Umgjörðin á þessari sýningu var einföld, til dæmis var músargerfið mitt ekki annað en svart nef, tvö músareyru og þrjú veiðihár hvoru megin, teiknuð með blýanti. Einhverju síðar kom lítil frænka í heimsókn, sú hafði séð sýninguna. Hún horfði hugsi á mig nokkra stund og spurði mig hvort ég hefði verið inni í músinni í leikritinu? Ég játaði því. Þá spurði hún: Er músin þá inni í þér núna?
Þetta er kannski eimitt galdurinn við að skapa persónu á sviði. Leikarinn þarf alltaf að draga persónuna úr iðrum hugarfylgsna sinna. Finna einhverja persónu sem býr innra með honum og lofa henni að taka yfir, allavega meðan á sýningum stendur. Svo má sökkva henni niður í hugarfylgsnin aftur.
Sumum veitist það erfitt, þá er talað um að fólk festist í karakter. Þetta er það sem leikaranir í leikhópnum hafa veirð að baksa við undanfarnar vikur. Oftast að loknum vinnudegi eða í bítið um helgar. Þetta, að finna blæbrigðin í persónusköpun, er ekki síst það sem er svo skemmtilegt við að taka þátt í leiksýningum. Jújú, það getur verið erfitt og frústrerandi, en þegar upp er staðið er það næstum alltaf mjög gefandi og skemmtilegt. Enda er það ekkert smáræði sem fólk leggur á sig til að gera svona sýningu að raunveruleika.
Flestir leikaranna í þessari sýningu eru að leika upp fyrir sig í aldri, þ.e. að leika persónur sem eru eldri en leikararnir eru. Þá vaknar sú spurning hvort maður eigi þá reynslu til? Getur maður kafað í hugarfylgsnin og fundið eitthvað sem maður hefur ekki upplifað? Ég veit það raunar ekki en á hitt ber að líta að gamalt fólk er oft mjög ungt í anda, það er bara skrokkurinn sem er að hrörna. Verkið fjallar meðal annars um réttinn til að verða gamall og halda áfram að lifa lífinu. Ég held að besta leiðin til að lifa lífinu sé einmitt þessi, að taka þátt í uppfærslu hjá kröftugu leikfélagi á borð við Leikfélag Hólmavíkur og leggja á djúpið, sálardjúpið.”
Skúli Gautason
Höfundur verksins
Leikritahöfundurinn Arnmundur S. Backman var hæstaréttarlögmaður sem rak sína eigin stofu og vann m.a. fyrir ASÍ. Hann unin ritstörfum og skrifaði skáldsögurnar Hermann 1989, Böndin bresta 1990 og Almúgamenn 1998. Einnig leikritin Blessuð jólin og Maður í mislitum sokkum. Það síðarnefnda var frumsýnt hjá Þjóðleikhúsinu eftir andlát Arnmundar í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Fyrsta æfingin fór fram með Arnmundi á heimili hans með leikurum, leikstjóra, Stefáni Baldurssyni þjóðleikhússtjóra og Eddu Heiðrúnu Backman sem var systir Arnmundar.
Sýningar
Frumsýning, sun. 26. mars, kl. 16, Félagsheimilið Sævangur
2. sýning, lau 1. apríl, kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
3. sýning, sun 2. apríl, kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
4. sýning, fim 6. apríl (skírdagur), kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
5. sýning, lau 8. apríl, kl. 20, Félagsheimilið Sævangur
Miðaverð var 3.900.- Ókeypis aðgangur var fyrir fólk sem ekki hafði íslensku að móðurmáli. Hægt var að kaupa súpu á Sauðfjársetrinu fyrir leiksýningar. Miða- og súpupantanir voru í s. 693-3474 (Ester).