Leikferðin með Karlinn í kassanum norður í Árneshrepp í júní 2001 var kannski ekki sérlega söguleg. Flest allt gekk vel og menn komust í hefðbundna kaupstaðarferð í Norðurfjörð og fótbolta í Árnesi. Handverkshúsið Kört var líka heimsótt og þeir guðræknustu kíktu í kirkjur. Prófasturinn lét kirkjurnar þó alveg í friði.
Stefnan var að leggja í hann á rútu sem Tryggi Ólafs á Drangsnesi ók um kl. 10:00 um morguninn og koma heim samdægurs, sem er óvenjulegt þegar farið er í Árneshrepp. Yfirleitt er gist á staðnum. Rútan komst þó ekki nærri því strax af stað því Stebba mætti heldur seint. Grunur leikur á að hún hafi verið í gleðskap. Á meðan labbaði Jón sem vissulega hafði verið í allt öðrum gleðskap af stað frá Hólmavík til að anda að sér fersku lofti og var hann kominn inn undir Hrófberg þegar rútan náði honum.
Þegar norður var komið var hafist handa við uppsetningu ljósa og leikmyndar, en allir þurfa að taka þátt í því – hæfilega alvörugefnir í bragði. Síðan er vani að menn snæði ýmsar krásir og síðan tekur förðunin við og menn reyna að finna karakterinn sinn.
Sýningin gekk vel og áhorfendur skemmtu sér hið besta. Þar sem um lokasýningu var að ræða var ekki laust við að sumir leikarar gæfu sér dálítið lausan tauminn þó allt væri það í hófi. Eftir sýninguna var leikmynd og ljósum kippt niður, raðað í rútuna og brunað heim aftur. Á leiðinni heim færðist mikið fjör í liðið eins og myndir sanna og sýna.