December 27, 2024

Sýningar og leikferð með Landabruggið

Frumsýnt var í bragganum á Hólmavík 5. maí. Frumsýningin gekk einkar vel, en í eins og í öllum góðum sýningum kom nú samt eitthvað upp á. Ester (Stína) lék af svo miklum tilþrifum að þegar hún átti að kvelja Einar (Hauk hálfjárn) með því að púðra hann í framan, þá rak hún púðurburstann á kaf í andlitið á honum svo að nefið rifnaði hálft af og hékk bara á smá skinntægju efst. Blóðið fossaði úr honum, en Einar reyndi að snúa þeirri hlið aftur þar til hann komst út skömmu síðar. Þá var nefið rimpað á hann aftur.

Að lokinni frumsýningu var farið í mat niður á Hótel, en þar sá hótelstýran fyrir skemmtun og óvæntum uppákomum með matnum. Leikur grunur á að hún hafi neytt örvandi lyfja.

Af hótelinu lá síðan leiðin á Litlu-Hellu þar sem haldið var gífurlegt frumsýningarpartý sem stóð fram eftir nóttu og næsta morgun. Það hefur sjálfsagt verið mikill höfuðverkur fyrir Ómar daginn eftir að mæta til fundar við endurskoðandann sinn sem mættur var til að gera með honum skattskýrsluna. Án efa erfiður dagur.

7. maí voru 2 sýningar, barnasýning um daginn. Hún gekk þolanlega en þó fremur illa. Ásmundur hvíslari, ljósamaður og sviðsmaður mætti ekki fyrr en 3 mínútur voru í sýningu og voru þá margir orðnir heldur strekktir. Kvöldsýningin var sennilega besta Hólmavíkursýningin. Mjög margir mættu og allt gekk ljómandi vel.

Næst var sýnt í Broddanesi 9. maí. Daginn áður var farið til að setja upp sviðið og er það síst of snemmt að fara degi fyrr til að ganga frá sviði þar. Sviðið reyndist heldur lítið og þurfti að fella út hluta af leikmyndinni. Farið var með draslið á Kaupfélagskerrunni út eftir en hún reyndist ekki sérlega hentug og fór lögregluþjónninn okkar með dótið til baka á vörubíl Sigga Villa. Sýningin gekk vel, ca 60 mættir, og fengum við að launum kaffi, rjómatertur og smurðar samlokur, frá ættingjum leikaranna.

2. júní var svo sýnt á Hólmavík eftir að nokkurt hlé hafði verið gert á sýningum. Sú sýning gekk ágætlega og töluvert var um að menn kæmu til að sjá leikritið öðru sinni.

4. júní var sýnt á Drangsnesi. Þangað fórum við, eins og í Broddanesi, daginn áður til að stilla upp. Mundi á Grund fór með sviðsmyndina á vörubílnum, en allt gekk vel fyrir utan torfærukeppni milli Ómars á Landcruser og Jóns á Lödu sem gekk undir nafninu þrumuvagninn. Þá þurftu allir að eyða drjúgum tíma í að ýta. Daginn eftir var svo fjölmennt á staðinn til að sýna og gekk það í alla staði ágætlega, ca 60 áhorfendur.

Reykjanes var næst á dagskrá. Þar verður helst ekki sýnt aftur í bráð. Við fórum þangað á rútukálfi frá Ásgeiri á Ísafirði og reyndist hann í alla staði vel nema upp í móti og á jafnsléttu, auk þess sem hann hefði þurft að vera opinn að aftan og sætin þægilegri og segulbandið í lagi. Þetta var þó ekkert miðað við það sem tók við þegar í Reykjanes var komið. Þá kom í ljós að ekkert svið var á staðnum og tók við mikið streð að smíða það úr skólaborðum, plönkum frá Íslax og spónaplötum. Það mætti ekki nokkur sála fyrr en tíu mínútur voru til sýningar en þá fór að rætast úr og varð gott áður en yfir lauk. Það var ekki laust við að það væri farinn að fara fiðringur um þá allra stressuðustu. 

Sýningin hófst klukkan fjögur í blíðskaparveðri og sólskini, auk þess sem húsið stendur á hver. Er skemmst frá því að segja að þó allar hurðir og gluggar væru opnir, hafði kælikerfið ekki undna. Talið er að hitinn í húsinu hafi verið um 37 gráður í skugganum. Leikarar fækkuðu fötum eftir því sem hægt var innan velsæmismarka, en þrátt fyrir það rann farðinn af þeim, niður á skyrturnar ásamt svitalækjum. Áhorfendur gengu út til að kæla sig öðru hverju og komast hjá yfirliðum og sama gerðu leikarar sem ekki voru á sviðinu hverju sinni. Ef við hefðum ekki komist í sund að lokinni sýningu hefði ekki verið líft í rútunni sökum svitapestar á leiðinni heim.

Meiningin var að fara um Þorskafjarðarheiði í Króksfjarðarnes daginn eftir, en nei ónei. Vegagerðinni finnst nefnilega of snemmt að opna Þorskafjarðarheiði, Tröllatunguheiði og Steinadalsheiði fyrir 17. júní. Stysta leið var sem sé Steingrímsfjarðarheiði til Hólmavíkur og þaðan Laxárdalsheiði til Króksfjarðarness. Þetta varð því 626 km rúntur um þessa helgi. Á leiðinni að Nesi gerðum við einn af okkar stærstu feilum í ferðinni. Við fengum okkur að borða á hótelinu á Laugum í Sælingsdal. Þegar við komum svo skömmu síðar að Nesi beið okkar kaffiveisla, síðan hangikjötsveisla og svo kaffiveisla aftur eftir sýningu. Smávegis förðunarvandamál kom upp á, grái hárliturinn var búinn en það var leyst með kartöflumjöli. Það hafði hins vegar þær afleiðingar að alltaf þegar Friggi (Friðrik læknir) hreyfði sig, stóð hann í hvítum mekki þegar mjölið þyrlaðist um allt.

Viðtökurnar voru mjög góðar í Nesi, áhorfendur kátir og hressir og ekki spillti fyrir uppákoma þar sem hurðarhúnn kom mjög við sögu. Eftir sýninguna þurftum við meira að segja gefa æstum áhorfendum eiginhandaráritanir. Mikið var það nú gaman. Við vorum komin heim fimm um nóttina á eðalvagninum sem nú hafði fengið nafnið Gullkálfurinn. Flestir mættu til vinnu á réttum tíma.

Lagt var af stað á Hnífsdal og Bolungarvík 23. júní. Seint um kvöldið kom gullkálfurinn að Engidal eftir langa og stranga ferð. Þar hafði Orkubúið lánað okkur hús til að búa í á meðan á dvölinni stóð. Það var mjög skemmtilegt, enda kjörið undir svona hóp. Þar elduðum við og höfðum það gott.

Á sýninguna í Hnífsdal mættu 19 manns sem var mætingarmet á verri veginn. Ástæður eru sjálfsagt nokkrar. Auglýsa þarf meira í stórum bæ, þyrfti að auglýsa í útvarpi og landsfjórðungsblöðum. Ástæðan gæti líka verið áhugaleysi heimamanna fyrir aðkomuleikflokkum eða bara eitthvað annað. Eitt er þó víst. Hnífsdal verður sleppt í næstu leikferð. Húsvörðurinn var svo indæll að fella niður húsaleigu af sýningunni, hefur sennilega (og vonandi) skammast sín fyrir sitt heimafólk. Sýningin gekk vel og var minnistætt hvað Jón (Hans Hólm hæstaréttarlögmaður) lék af óvenju miklum tilþrifum á þessari sýningu, meira að segja tókst honum að velta um sófasetti og lenda undir því án þess þó að það yrði honum til tjóns.

Lögregluþjónninn Jón Vilhjálmsson óvenju gretturViðtökurnar í Bolungarvík bættu upp áhorfendafjöldann í Hnífsdal. Margir mættu og skemmtu sér vel. Þarna fengum við aðstoðarmann við uppsetninguna, Bjarka ljósamann þeirra Bolvíkinga. Hann hjálpaði mikið við uppsetningu ljósanna, enda getur hann teygt sig upp í 10 metra hæð. Okkur var boðið í tertur og kaffi að sýningu lokinni. Keyrt var heim um nóttina og komið á Hólmavík um kl. 7 um morguninn. Fáir, en þó sumir, mættu á réttum tíma í vinnuna.

Lokaferðin var norður í Árneshrepp 8. júlí. Mundi fór með dótið á vörubíl daginn áður og Jón, Ester, Ómar, Einar og Steina fóru líka og byrjuðu að stilla upp. Hinir komu daginn eftir. Tvær sýningar voru og ætti Átthagafélag Strandamanna eins og það lagði sig á seinni sýninguna. Hún Salbjörg mætti heldur er ekki óvenjuleg í útliti að þessu sinni. Hún hafði farið á ball daginn áður og slegið hausnum við vegg nokkrum sinnum, allavega var hún með risavaxnar kúlur á höfðinu og glóðarauga á báðum. Það tókst að vísu að sminka yfir þetta að mestu, en þó var engu líkara en hún væri náfrænka fílamannsins og með tvöfalt vatnshöfuð. Kom það þó ekki að sök á ballinu á eftir.

60 mættu á fyrri sýningu og 120 á þá seinni. Tímamet var slegið við að taka niður sviðið, það var rifið og fjarlægt hvert tangur og tetur af því 12 mínútum eftir uppklapp og hljómsveitargræjum komið fyrir á innan við 8 mínútum. Sýningu var lokið heldur seint, ekki fyrr en hálf tólf og hljómsveitarmeðlimir voru orðnir býsna órólegir og töldu víst að ballið gæti ekki byrjað fyrr en daginn eftir. Það varð nú eitthvað annað og ballið varð að veglegu slútti fyrir leikritið. Það var mjög gaman eða mig rámar alla vega eitthvað í það.

[Skráð af Jóni Jónssyni, þáverandi leikfélagsformanni]